Innlent

Fjármagn til meðferðar kynferðisbrotamanna fæst ekki

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í dag eru tveir einstaklingar sem afplána skilorðsbundinn dóm gegn því að sæta meðferð. Myndin er sviðsett.
Í dag eru tveir einstaklingar sem afplána skilorðsbundinn dóm gegn því að sæta meðferð. Myndin er sviðsett. nordicphotos/getty
„Það er alltof lítið gert af því að dæma menn til meðferðar. Þó þarf einhver að greiða fyrir meðferðina, vandinn liggur kannski í því,“ segir Anna Kristín Newton, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun.

Anna bendir á að ekki sé til fjármagn og mannskapur til þess að sinna meðferðum fyrir kynferðisafbrotamenn þrátt fyrir heimild dómara til þess að dæma þá til meðferðar. Hjá Fangelsismálastofnun starfi tveir sálfræðingar sem sinna meðferðum þeirra sex hundruð einstaklinga sem hlotið hafa dóm.

Anna er einn helsti talsmaður þess að gerendur kynferðisofbeldis fái meðferð og er ein af fáum hér á landi sem veita slíka meðferð. Hún telur að slík meðferð geti skipt miklu máli. Rannsóknir sýni að hægt sé að lækka ítrekunartíðni kynferðisbrota um helming með því að veita meðferð.

„Aðalvandinn er sá að ekki er til markvisst úrræði né fjármagn til þess að veita kynferðisafbrotamönnum viðeigandi meðferð,“ segir Anna sem hefur þurft að veita kynferðisafbrotamönnum meðferðir án endurgjalds. „Það er þó ekki hægt að gera það endalaust ókeypis.“

Anna Kristín Newtonvísir/ernir
Í dag er tveir einstaklingar sem afplána skilorðsbundinn dóm gegn því að þeir sæti meðferð.

„Það var þó í raun óljóst hver ætti að veita þá meðferð. Fangelsismálastofnun fær enga fjármuni til þess að framkvæma hana. Hvernig eigum við þá að geta sinnt því? Í augnablikinu erum við bara með tvo slíka einstaklinga í meðferð hjá okkur og þá sinnum við því auðvitað þrátt fyrir að fá ekki fjármagn til þess.“ 

Þá bendir Anna á að það þurfi að vera skýrt þegar menn eru dæmdir til meðferðar um hvaða meðferð ræðir. Dómarar þurfi að ganga úr skugga um að hún sé viðunandi og til þess fallin að taka á hegðun gerandans.

„Þú sendir ekki geranda kynferðisofbeldis í áfengismeðferð eða þunglyndismeðferð,“ segir sem kveður einstaklinga sem afplána refsidóm alla jafna ekki hættuleg samfélaginu á meðan þeir sitja í fangelsi. Áhættan komi hins vegar fram þegar einstaklingurinn hefur lokið afplánun og fer aftur út í samfélagið.

„Þess vegna finnst mér að þrátt fyrir skort á fjármunum og sálfræðingum þá ætti að veita markvissari meðferðir sem hluta af dómi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.