Innlent

Ræddi orku- og auðlindamál við Juncker

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigmundur Davíð segir að fundurinn með Juncker hafi verið afslappaður og góður.
Sigmundur Davíð segir að fundurinn með Juncker hafi verið afslappaður og góður. fréttablaðið/gva
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að samstaða sé um það milli sín og Jeans Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Ísland og Evrópusambandið geti byggt farsæl samskipti á grundvelli EES-samningsins og eflt hann. Þeir funduðu saman í Brussel í gær.

Sigmundur segir að þegar hann hitti Barroso, forvera Junckers, árið 2013 hafi Barroso eðlilega farið fram á það að þeir byrjuðu að ræða framtíðina í samskiptum Íslands og ESB. Fulltrúar Íslands myndu byrja á að gera grein fyrir afstöðu sinni til sambandsins og hvað yrði um aðildarumsóknina.

„Nú er loks búið að fá það á hreint og Evrópusambandið og Ísland á sömu síðu hvað það varðaði. Við gætum þá farið að byggja upp samband Íslands og ESB á þeim grunni,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að þeir Juncker hafi rætt nokkur svið þar sem Ísland og ESB gætu átt samstarf. Þar hafi ekki síst borið á góma norðurslóðamál, þar sem Evrópusambandið sækist eftir áheyrnaraðild að norðurskautsráðinu.

„Við ræddum líka talsvert um sjávarútvegsmál, fiskveiðistjórnunarkerfið og orkumál.“

Sigmundur Davíð mun í dag ræða við Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, en líka kynna sér starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×