Innlent

Vilja stórefla flugsamgöngur til Vestmannaeyja

Ingvar Haraldsson skrifar
Bæjarráð vill efla flugsamgöngur milli lands og Eyja.
Bæjarráð vill efla flugsamgöngur milli lands og Eyja. vísir/pjetur
„Það tekur að minnsta kosti tvö ár að smíða svona skip og við þurfum að bregðast við ástandinu þangað til,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. 

Bæjarráð Vestmannaeyja hyggst koma á fót stýrihóp um hvernig efla megi flugsamgöngur til Vestmannaeyja þar til nýr Herjólfur verður tekinn í notkun. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að fara í útboð á nýrri ferju og Vegagerðinni hefur verið falið að annast útboðið. Elliði bendir á að frá því að Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010 hafi Herjólfur ekki getað siglt inn í höfnina stóran hluta ársins. Samhliða byggingu Landeyjahafnar hafi átt að smíða nýja ferju sem ætti auðveldara með að sigla inni í höfnina.

Elliði Vignisson
„Þegar ákvörðunin var tekin um að byggja Landeyjahöfn þá var farið í umtalsverðar fjárfestingar út á þessa samgönguleið. Síðan hættir ríkið við helminginn af framkvæmdinni, það byggði bara höfn en ekki nýtt skip. Eftir þá ákvörðun ríkisins hafa þessar fjárfestingar staðið ónýttar í átta til níu mánuði á ári. Þetta er ákvörðun sem við verðum að bregðast við. Þar til nýtt skip kemur verður það varla gert nema með flugsamgöngum,“ segir Elliði.

Frá því að Landeyjahöfn var tekin í notkun hefur áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Bakka lagst af. Elliði segir það stýrihópsins að skoða hvort hægt sé að endurvekja áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Bakka eða efla flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja frekar.

Stýrihópurinn á að skila bæjarráði tillögum fyrir 11. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×