Innlent

Mismunað eftir áhugasviði

snærós sindradóttir skrifar
Ný greining á íþróttamálum í Hafnarfirði málar svarta mynd af niðurgreiðslum sveitarfélagsins til barna.
Ný greining á íþróttamálum í Hafnarfirði málar svarta mynd af niðurgreiðslum sveitarfélagsins til barna. vísir/valli
„Þetta niðurgreiðsluform er […] ósanngjarnt og mismunar börnum og unglingum eftir aldri, fjárhagsstöðu foreldra og íþrótta- og tómstundagreinum.“ Þetta segir í nýrri skýrslu um íþróttamál í Hafnarfirði.

Skýrslan, sem unnin er af ráðgjafarfyrirtækinu R3, málar svarta mynd af niðurgreiðslum sveitarfélagsins til barna sem iðka íþróttir. Fram kemur meðal annars að börn sem stunda fótbolta, fimleika og fleiri greinar fá hærri niðurgreiðslu en börn sem stunda gólfíþróttir og badminton.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist búast við því að brugðist verði við vandanum þegar líða tekur á haustið. „Nú setjumst við yfir þessa skýrslu og skoðum hvað við teljum að betur mætti fara,“ segir Haraldur.

Lægstu niðurgreiðslu fá börn á aldrinum sex til tólf ára sem æfa gólfíþróttir, badminton og aðrar keimlíkar greinar, eða um 15.300 krónur á ári.

Hæstu niðurgreiðsluna fá tólf til sextán ára börn sem æfa fótbolta, fimleika og fleira, eða 30.600 krónur á ári.

Hægt er að fá niðurgreiðslu fyrir tvær íþróttagreinar í einu. Þar af leiðir að börn sem æfa tvær íþróttir sem hljóta meiri niðurgreiðslu geta fengið allt að 61.200 krónur á ári. Niðurgreiðslan getur því munað 299 prósentum á milli barna.









Í skýrslunni segir að fyrirkomulagið komi niður á börnum sem eiga foreldra sem ekki hafa efni á að greiða mismuninn af tveimur íþróttagreinum, eftir niðurgreiðslu.

Þá segir í skýrslunni að sækja verði sérstaklega um niðurgreiðsluna, ólíkt því sem gengur og gerist til dæmis í Reykjavík. Fáir virðist sækja um niðurgreiðsluna og er það mat skýrsluhöfunda að það geti ekki stafað af áhugaleysi foreldra á því að fá tómstundir barna niðurgreiddar.

Í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu nær niðurgreiðsla til tómstunda til átján ára aldurs. Þetta á ekki við um kerfið í Hafnarfirði, þar sem börn til sextán ára aldurs fá niðurgreiðslu. Fram kemur í skýrslunni að full ástæða sé til að endurskoða þetta þar sem mikið brottfall verði úr íþróttum á þessum aldri.

„Skýrslan er þarna og nú ætlum við bara að horfa fram á veginn og vinna úr því sem þar er lagt til,“ segir Haraldur bæjarstjóri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×