Innlent

Hefur látið til sín taka í flokkun

gyða lóa ólafsdóttir skrifar
Hanna Guðrún með laxinn sem hún veiddi við opnun Elliðaánna á laugardagsmorgun.
Hanna Guðrún með laxinn sem hún veiddi við opnun Elliðaánna á laugardagsmorgun. mynd/Aðsend
Samfélag Þroskaþjálfinn Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir er Reykvíkingur ársins 2015.

Hanna Guðrún hefur látið til sín taka þegar kemur að flokkun á rusli og umhverfisvernd en hún er búsett í Kóngsbakka í Neðra-Breiðholti og var tilnefnd af nágranna sínum.

Hún hefur verið formaður húsfélagsins í Kóngsbakka um nokkurra ára skeið og staðið fyrir fræðslustarfi um flokkun sem leitt hefur til þess að sorptunnum hefur verið fækkað um tvær í hverjum stigagangi og flokka íbúar nú allan pappír og pappa frá almennu heimilissorpi.

Sjálf slær Hanna Guðrún ekki slöku við og flokkar einnig plast, málma og lífrænan úrgang frá heimilissorpi sínu og notar að auki þann lífræna úrgang sem til fellur til moltugerðar.

Á laugardagsmorgun opnaði Hanna Guðrún Elliðaárnar í boði borgarstjóra og Stangaveiðifélags Reykjavíkur og um hálf átta landaði hún maríulaxi sínum sem var 62 sentimetrar að lengd. „Hann bragðaðist mjög vel, það er alltaf gott að fá svona nýveiddan og nýgenginn lax,“ segir Hanna Guðrún sem var búin að matreiða fenginn og flokkaði að sjálfsögðu lífræna úrganginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×