Innlent

Vandinn virðist minni en talið var í fyrstu

Svavar Hávarðsson skrifar
Kenningin um samband fjárdauða og eldgoss í Holuhrauni virðist ekki standast.
Kenningin um samband fjárdauða og eldgoss í Holuhrauni virðist ekki standast. fréttablaðið/vilhelm
„Það er varasamt að draga of miklar ályktanir, en vandamálið virðist ekki eins mikið og leit úr fyrir í fyrstu,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir um rannsókn vegna óútskýrðs fjárdauða víða um land. Bændur af 167 bæjum hafa svarað spurningalista Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands sem um 2.000 bændur fengu sendan. Af þessum 167 sem svarað hafa er dauðatíðnin þrjú prósent að meðaltali, en í venjulegu árferði er tíðnin eitt til tvö prósent.

„Þegar útbreiðsla fjárdauðans er skoðuð þá sker Austurland sig úr, en þar er dauðatíðni lægri. Hæstu svörin sem eru að berast frá einstökum bændum er 12 til 14%,“ segir Sigurborg, sem bætir við að dýrin virðist almennt séð hafa haft góða lyst en nærist ekki. „Það bendir til að þær hafi ekki verið veikar, en dýr sem eru veik hætta oftast að éta þó það sé ekki algilt.“

Spurð um orsakir fjárdauðans segir Sigurborg ljóst að illa viðraði til heyskapar í fyrrasumar. Þó sé ekki hægt að fullyrða að léleg hey séu ástæðan. „Það er allavega ljóst að sjúkdómsmyndin er næringarskortur, en af hverju vitum við ekki; hvort þær hafa ekki fengið næga næringu eða hvort þær hafa ekki getað tekið hana upp úr fóðrinu.“

Sigurborg efast stórlega um að eldgosið í Holuhrauni hafi eitthvað með fjárdauðann að gera, enda sé lægsta dauðatíðnin á Austurlandi þegar litið er til svara þeirra bænda sem hafa veitt upplýsingar um fjárdauðann til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×