Innlent

Vandi ungra fanga brýnn en óleystur

sveinn arnarsson skrifar
Háholt í Skagafirði. Þrjú meðferðarheimili eru á landinu fyrir unga fanga og eru þau öll staðsett í landsbyggðunum. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að halda vel á spöðunum og skapa viðunandi úrræði fyrir unga fanga.
Háholt í Skagafirði. Þrjú meðferðarheimili eru á landinu fyrir unga fanga og eru þau öll staðsett í landsbyggðunum. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að halda vel á spöðunum og skapa viðunandi úrræði fyrir unga fanga.
Ríkisendurskoðun gagnrýnir velferðarráðuneytið fyrir að hafa ekki fundið varanlega lausn á vanda hóps ungmenna vegna vímuefnanotkunar og afbrotahegðunar sem og þess hóps ungmenna sem glímir við fjölþættan vanda, það er vímuefnavanda, afbrotahegðun og andlegt heilsuleysi. Árið 2011 hafi Barnaverndarstofa sent ráðuneytinu erindi um aðgerðir og taldi að sá hópur sem hvað lakast stæði þyrfti á nýju meðferðarheimili að halda nærri höfuðborgarsvæðinu.

Barnaverndarstofa býr yfir þremur meðferðarstofnunum fyrir börn. Öll meðferðarheimilin eru í landsbyggðunum; Lækjarbakki á Rangárvöllum á Suðurlandi, Laugaland í Eyjafirði og á Háholti í Skagafirði. Þau tvö síðarnefndu eru rekin samkvæmt þjónustusamningi en heimilið að Lækjarbakka er alfarið rekið af íslenska ríkinu.

Eygló HArðardóttir Félags- og húsnæðismálaráðherra
„Velferðarráðuneytið er komið vel á veg með vinnu við ýmsar þær úrbætur sem Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegar og ábendingar stofnunarinnar eru gagnlegar og unnið verður í samræmi við þær,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Síðastliðið haust var skipuð nefnd um endurskoðun stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og rennir skýrsla Ríkisendurskoðunar stoðum undir það starf.“

Ríkisendurskoðun bendir á að markviss viðbrögð ráðuneytisins við tillögum Barnaverndarstofu hefðu mögulega getað komið í veg fyrir þau vandræði sem sköpuðust vegna vistunar ungra fanga. Hvetur stofnunin ráðuneytið til að vinna að framtíðarlausn í málaflokknum þar sem Háholt sem vistunarstaður ungra fanga er bráðabirgðalausn og að nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu geti falið í sér lausn á vistunarmálum ungra fanga sem og vanda ungmenna með vímuefnavanda og afbrotahegðun hvað varðar meðferðarúrræði.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fullyrða þeir að lítið hefur áunnist við að leysa vanda barna sem glíma við fjölþættan vanda. Á sama tíma væri vandinn þekktur og viðurkenndur. Einnig er talið að mál þessu tengd hafi þróast til verri vegar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var gerður að lögum árið 2013 og jafnframt því var lögum um fullnustu refsinga breytt á þá leið að fangar sem væru undir átján ára aldri skuli vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×