Innlent

Flóðahætta svipuð og var 2006

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Svona var ástandið við Auðsholt í Hvítárflóði 2006. Flóðahætta gæti orðið í leysingum um helgina.
Svona var ástandið við Auðsholt í Hvítárflóði 2006. Flóðahætta gæti orðið í leysingum um helgina. Fréttablaðið/Stefán
Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun vegna vatnavaxta og hláku sunnan- og suðaustanlands. Þetta kemur fram á vefsíðu almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Spáð er mikilli rigningu sunnan- og suðaustanlands ásamt auknum hlýindum í dag og yfir helgina.

„Það er sambærilegt veðurfar og árið 2006 þegar urðu miklir vatnavextir í Ölfusá og Hvítá,“ segir Guðrún Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá almannavarnadeild. „Þetta veðurmynstur kemur upp á nokkurra ára fresti. Við ráðleggjum fólki að hreinsa frá frárennslisrörum og niðurföllum til að koma í veg fyrir tjón. Veðurstofan er síðan að vakta öll helstu hættusvæði og mun gefa út tímanlegar viðvaranir ef þörf þykir,“ segir Guðrún.

Miklum leysingum er spáð um allt land og sérstaklega er varað við vatns- krap- og aurflóðum. „Það er mikið um aukin hlýindi um allt land og það er mikill snjór um landið allt,“ segir Svava Björk Þorláksdóttir, landfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Þannig að það er hætta á miklum leysingum um landið allt og í raun og veru ekkert eitt svæði sem þarf að vakta sérstaklega. Við þurfum að vera varkár og hafa augun opin um allt land,“ segir Svava.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×