Innlent

Leyndarhjúpur yfir fundi skoðaður sem öryggismál

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðni Einarsson segir að tekið hafi verið á móti sér í anddyri Ráðhúss Hafnarfjarðar og að fundurinn hafi farið fram á 2. hæð. Hann veit hins vegar ekki hverjir sátu fundinn með honum.
Guðni Einarsson segir að tekið hafi verið á móti sér í anddyri Ráðhúss Hafnarfjarðar og að fundurinn hafi farið fram á 2. hæð. Hann veit hins vegar ekki hverjir sátu fundinn með honum. Vísir/GVA
„Hér með tilkynnist að til skoðunar er hvort tilefni er til að veita þér skriflega áminningu fyrir athafnir sem teljast ósæmilegar og óhæfilegar með því að hafa sagt samstarfsfólki, starfsmönnum stéttarfélags þíns og fleirum að bæjarstjóri hafi með óviðeigandi hætti rætt við þig um störf og fyrirkomulag starfa við höfnina á fundi sem þú hafir verið boðaður til í Ráðhúsi Hafnarfjarðar,“ segir í bréfi Unnar Láru Bryde, formanns hafnarstjórnar, til Guðna Einarssonar hafnarstarfsmanns, dagsettu 2. febrúar.

Guðni hefur ekki getað greint frá því við bæjaryfirvöld hverjir hafi setið fund með honum í Ráðhúsi Hafnarfjarðar þann 15. nóvember í fyrra. Þetta kemur fram í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar, dagsettri 22. janúar síðastliðinn. Í fyrstu hafi Guðni talið að hann hafi átt fund við Harald Líndal Haraldsson bæjarstjóra, en hann dró það til baka þann 8. desember á fundi með bæjarstjóra.

Hafnarfjarðarbær hefur lagt mikla vinnu í að rannsaka málið með ýmsum hætti. Í greinargerð Kristjáns Sturlusonar, sviðsstjóra stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar, kemur fram að Guðna hafi verið sýndar myndir af starfsmönnum bæjarins sem hafa aðgang að bæjarskrifstofum um helgar, en Guðni hafi ekki getað munað hverjir það voru sem sátu fundinn.

Haraldur Líndal Haraldsson
Félag skipstjórnarmanna gagnrýndi vinnubrögð bæjarins harðlega. Í bréfi frá lögmanni þeirra, dagsettu 6. febrúar, er því haldið fram að farið hafi verið offari gegn Guðna, málið valdið honum miklum óþægindum og óskað er eftir að málið verði fellt niður.

„Er engin ástæða til að ætla, að hann fari hér vísvitandi með rangt mál varðandi umræddan fund,“ segir í bréfinu.

Greinargerð bæjarins er einnig gagnrýnd harðlega og segir að rannsókn á persónulegum högum Guðna gefi honum alvarlegt tilefni til að skoða réttarstöðu sína.

Guðni segir að tekið hafi verið á móti honum í forstofu ráðhússins og hann verið boðaður með símtali deginum áður. Eftir rannsókn Hafnarfjarðarbæjar á málinu er ljóst að ekki var hringt í hann úr síma bæjarins.

„Guðni kveðst ekki hafa þekkt þá sem hann hitti á fundinum og ekki muna hvort þeir hafi kynnt sig með nafni. Hann segir að um hafi verið að ræða tvo karlmenn,“ segir í greinargerðinni. Einnig segir að vegna bilunar í gagnaskráningu aðgangskerfis Hafnarfjarðarbæjar sé ekki hægt að sjá hverjir það voru sem opnuðu dyr eftir klukkan átta um morguninn.

Samstarfsmenn Guðna staðfesta að hann hafi farið frá í hálftíma á laugardeginum þegar fundurinn á að hafa átt sér stað. Þegar hann kom til starfa aftur sagði hann starfsmönnum hafnarinnar frá efni fundarins. Einnig segja þeir honum hafa verið brugðið.

Bæjarstjóri vill ekki tjá sig um málið. Reynt var að ná í Unni Láru Bryde, formann hafnarstjórnar, við vinnslu fréttarinnar en án árangurs.

Gunnar Axel Axelsson
Verða að gera hreint fyrir sínum dyrum

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, telur að bæjarstjóri og oddviti meirihlutaflokkanna verði að skýra frá aðkomu sinni að málinu. Einnig telur hann óeðlilegt að kjörnir fulltrúar áminni einstaka starfsmenn bæjarins.

„Ég held að það hljóti allir að sjá hversu öfugsnúið og rangt það er að kjörnir fulltrúar séu að hlutast til um málefni einstakra starfsmanna og hvað þá að þeir gangi svo langt að veita þeim áminningu. Þar eru aðilar komnir langt út fyrir umboð sitt. Bæjarstjóri verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs verða sömuleiðis að gera grein fyrir sinni aðkomu að þessu máli hafi hún einhver verið. Þau skulda bæjarstjórn og bæjarbúum skýringar.“


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri játar að hafa skoðað símtalaskrár

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði segja skýringar bæjaryfirvalda ekki duga til þess að þeir kalli aftur kvörtun til Persónuverndar vegna skoðunar á símanotkun þeirra. Engin svör bárust frá bænum við spurningum Fréttablaðsins.

Bæjarstjóri skoðaði ekki símtalaskrár sjálfur

"Sá texti sem vísað er til er úr emaili frá þeim starfsmanni bæjarins sem annaðist þessa skoðun og það var hann einn sem skoðað þessa skrá,“ segir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Formaður segir bæjarstarfsmönnum brugðið

Starfsmenn hjá Hafnarfjarðarbæ munu ráðgast við lögmann er Persónuvernd hefur lokið skoðun á símtalamálinu. Síminn segir að tilkynna þurfi starfsmönnum fyrirfram að fyrirtæki kunni að fygjast með símnotkun.

Hafði enga fyrirfram vitneskju í símamáli

„Við höfðum enga fyrirfram vitneskju um þetta, ekki nokkra einustu,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, um símtalamálið í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×