Innlent

Hafði enga fyrirfram vitneskju í símamáli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forseti bæjarstjórnar segir bæjarfulltrúa og starfsmenn í sömu sporum í símamálinu.
Forseti bæjarstjórnar segir bæjarfulltrúa og starfsmenn í sömu sporum í símamálinu. Fréttablaðið/GVA
„Við höfðum enga fyrirfram vitneskju um þetta, ekki nokkra einustu,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, um símtalamálið í Hafnarfirði.

Guðlaug kveðst ekki hafa vitað af málinu fyrr en aðrir bæjarfulltrúar. „Við erum bara í sömu sporum og hinir,“ segir hún. Samkvæmt kvörtun þriggja bæjarfulltrúa minnihluta Samfylkingar og Vinstri grænna til Persónuverndar, upplýsti Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri um könnunina á símtölunum á bæjarráðsfundi 12. febrúar, fyrir átta dögum.

Guðlaug tekur fram að málið sem sögð er vera kveikjan að skoðun símagagnanna sé ekki á borði bæjarfulltrúa. Það sé annars vegar starfsmannamál og hins vegar öryggismál. „Það er engin aðkoma okkar að þeim málum heldur er þarna starfsfólk að störfum,“ segir hún.

Að sögn Guðlaugar standa allir starfsmenn og bæjarfulltrúar í sömu sporum gagnvart símamálinu. „Mér finnst það alveg koma til greina og það er ástæða til að rýna það,“ svarar hún spurð hvort fulltrúar meirihlutans muni óska eftir að það verði kannað.

Hins vegar vill Guðlaug ekki að svo stöddu lýsa afstöðu sinni til málsins fyrr en hún hafi aflað betri upplýsinga, meðal annars um það hvernig Persónuvernd taki á málinu.

Ekki fengust svör frá Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna og formanni bæjarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×