Innlent

Töldu sig hafa staðið rétt að því að kanna símtölin

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að það geti vel verið að upplýsa hefði átt bæjarfulltrúa um að símanúmer þeirra hefðu sætt rannsókn. Kvartað hefur verið til Persónuverndar vegna málsins. Hann segist una úrskurði Persónuverndar hvernig sem hann verður en bæjaryfirvöld hafi talið sig vera að gera rétt.

Þrír bæjarfulltrúar í Hafnarfirði hafa kvartað til Persónuverndar, þar sem símnotkun þeirra hafi sætt rannsókn og segja málið grafalvarlegt.

Tildrög málsins eru þau að hringt var í starfsmann Hafnarstjórnar og hann boðaður á fund í ráðhúsinu til að ræða yfirmann sinn.  Hafnarfjarðarbæ barst kvörtun vegna málsins og þar sem starfsmaðurinn gat ekki upplýst hver hringdi, leituðu bæjaryfirvöld til Vodafone.

Haraldur L. Haraldsson segir að send hafi verið beiðni til Vodafone og óskað upplýsinga um hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna númer á sex klukkustunda tímabili.  Símafyrirtækið svaraði beiðninni með því að afhenda yfirlit yfir öll símanúmer sem hringt hafði verið í.

Bæjaryfirvöld sendu frá sér tilkynningu um hádegisbil þar sem því er alfarið hafnað að við þessa rannsókn hafi verið kannað við hverja kjörnir fulltrúar eða aðrir starfsmenn sveitarfélagsins töluðu í síma.

Guðrún Ágústa segir að tilkynningin frá bænum veki upp fleiri spurningar en hún svari. Það verði að skýra hversu langt yfirvöld megi ganga í slíkum tilfellum. Enginn hafi verið spurður og enginn hafi því samþykkt að þetta yrði gert. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi VG tekur í sama streng, strax hafi verið óskað eftir upplýsingum um hver hafi tekið þessa ákvörðun, hvers vegna og á grundvelli hvaða heimilda. Svörin liggi ekki fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×