Innlent

Flensuorðrómur ekki staðfestur

Svavar Hávarðsson skrifar
Fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að láta bólusetja sig.
Fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að láta bólusetja sig. fréttablaðið/vilhelm
Sóttvarnalæknir hefur sérstaklega birt tilkynningu um að orðrómur um að inflúensan í ár verði skæðari en undanfarin ár hafi ekki verið staðfestur. Eins séu það vangaveltur einar að bólusetning í vetur sé minni vernd gegn veikindum en fyrri ár.

Í tilkynningunni kemur fram að rannsóknir erlendis á einum stofni inflúensunnar A(H3N2) sem nú er farinn að láta á sér kræla benda til að bóluefnið muni hugsanlega hafa minni virkni í ár en undanfarin ár. „Enn sem komið er þá eru þetta einungis vangaveltur því raunveruleg virkni fæst einungis með því að kanna hversu stór hluti bólusettra einstaklinga mun sýkjast en það verður ekki vitað fyrr en inflúensan hefur geisað í nokkurn tíma,“ segir sóttvarnalæknir sem vill benda á að aðrir stofnar inflúensunnar, A(H1N1) og B, muni að öllum líkindum einnig ganga í vetur og eru þeir stofnar einnig í bóluefninu og ekkert sem bendir til að vernd gegn þeim verði minni.

Þrátt fyrir vangaveltur þá sé ljóst að bólusetning sé besta leiðin til að koma í veg fyrir inflúensu þó að árangurinn sé breytilegur á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×