Innlent

Inflúensa og RS-sýking auka á vanda í verkfalli

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Álag eykst dag frá degi í viðkvæmri starfsemi Landspítalans.
Álag eykst dag frá degi í viðkvæmri starfsemi Landspítalans. Vísir/Ernir Eyjólfsson
Í síðustu viku greindust nokkrir Íslendingar með inflúensu og RS-sýkingu. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, segir aðgerðir lækna skella á spítalanum á versta tíma en í janúarmánuði herja jafnan skæðar pestir á landsmenn. „Það gerist nánast alltaf á þessum árstíma að það er enn meiri aðsókn að spítalanum en venjulega. Verkefnin okkar aukast á þessum tíma og það gefur augaleið að þegar um er að ræða verkfall lækna á sama tíma, þá fer þetta tvennt illa saman. Það eykur enn líkur á því að það verði erfitt fyrir okkur að tryggja öryggi sjúklinga. Það er barist við það á hverjum degi,“ segir Ólafur.

Á síðustu dögum hafa nokkrir einstaklingar greinst með inflúensu (bæði inflúensa A og B) og RS. Þessar veirusýkingar ganga alltaf hér á landi á þessum árstíma og má búast við að fleiri einstaklingar greinist með þessar sýkingar á næstu vikum.

Inflúensa getur verið skæður sjúkdómur, einkum hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma.

RS sýkir einkum börn á fyrstu aldursárum og getur valdið alvarlegum einkennum hjá yngstu börnunum.

Löng bið og þungt andrúmsloft
Ótti við mistök Læknar hafa svarið eið um að hlúa af alúð að sjúklingum sínum. Þeim líður illa og finnst viðræður þokast of hægt. Framkvæmdastjórar á spítalanum funda nú daglega og taka stöðuna í verkfalli lækna. Fréttablaðið/GVA
Á bráðamóttökunni í gær var biðin löng og ljóst að aðgerðir lækna tefja starfsemina þar allverulega. Ólafur segir bráðamóttökuna ekki mega við neinum truflunum á starfsemi sinni. „Allt árið um kring er starfsemin viðkvæm og má ekki við neinum truflunum,“ segir hann og óskar þess að deilan leysist skjótt því ástandið sé varasamt. „Við á Landspítalanum erum klemmd á milli deiluaðila og óskum eftir því að þeir leysi deiluna. Ástandið eins og það er núna er gríðarlega varasamt og þetta geta verið skæðar pestir sem ganga á þessum tíma.

Fréttablaðið greindi í gær frá sex konum sem biðu þess að fá að vita hvort þær komast í keisaraskurð. Fá þær að fara í aðgerðirnar? „Þær eru í mjög nákvæmu eftirliti og gætt vel að heilsu þeirra,“ segir Ólafur.

Andrúmsloft á spítalanum er þungt. „Maður hefur áhyggjur af starfsandanum við þessar aðstæður þegar samningar dragast og læknar fá á tilfinninguna að viðræður gangi hægt. Það togast á í læknum ýmsar tilfinningar því við höfum skrifað undir eiða sem við viljum ekki bregðast. Læknum finnst þetta óþægileg staða og óttast alvarlegar afleiðingar og mistök vegna verkfallsaðgerða í vikunni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×