Meðal kennara sem mættu á árshátíðina í gær er Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hann greindi frá því í gærkvöldi á Facebook að gaman hefði verið að fylgjast með flottum hópi ungs fólks skemmta sér. Hann hefði þó komið leiður heim. Ástæðan var brandaraval veislustjórans, Auðuns Blöndal.
„Það voru ekki homma- og typpastærðarbrandararnir einir sem ofbuðu mér. Það var upplegg hans um eigin tillögur að heitum á klámmyndum sem hann sá sjálfan sig og vini sína leika í,“ lýsir Magnús í færslu á Facebook sem vakið hefur mikla athygli.
„Sjálfur ætlaði hann auðvitað að fara fyrir myndinni „Anaconda“. Gillz vini sínum ætlaði hann hins vegar aðalhlutverk í klámmyndinni „Nei, er ekkert svar„. Þetta var brandari fyrir honum. Um nauðgun. Fyrir fullan sal af 16-20 ára nemendum. Þvílíkur dómgreindarskortur,“ segir Magnús og setur spurningamerki við hvort brandarar sem þessir séu við hæfi.
„Það er bara hreinlega ógeðfelt hvað þessir kvenfyrirlitningahúmor á greiðan aðgang að framhaldsskólamenningunni. Þessir félagar eru of tíðir gestir á þessum samkomum.“
Í kjölfar borðhaldsins var dansleikur í HK heimilinu. Þar þurfti tvívegis að kalla til lögreglu. Í fyrra skiptið var tilkynnt um rúðubrot og fékk dyravörður glerbrot í andlitið og þurfti að leita sér aðstoðar á slysadeild.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að vitað sé hver braut rúðuna og verði hann yfirheyrður vegna málsins. Í síðara skiptið sem lögregla mætti á svæðið var það vegna ábendinga dyravarða um að sautján ára piltur hefði stofnað til slagsmála fjórum sinnum þetta kvöld. Var hann handtekinn og svaf af sér í fangageymslum í nótt.