Innlent

Forsætisráðherra segir furðufugla geta komið hvers konar vitleysu í umferð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segist ekki taka umræðu um heilsufar sitt nærri sér en ýmsu hefur verið haldið fram á samfélagsmiðlum varðandi það og meðal annars því að hann sé galinn.

Sigmundur var gestur Björns Inga Hrafnssonar í Eyjunni í gærkvöldi og spurði þáttastjórnandi ráðherrann út í hvað honum fyndist um umræðuna.

„Hún er auðvitað lýsandi fyrir ástand sem ég vék að í ræðunni minni. Þetta er mjög óheilbrigt ástand og felst í því að þeir sem stunda illmælgi, niðurrifstal og dylgjur [...] Allt þetta á mjög greiða leið upp á yfirborðið. Það er að hluta til afleiðing af breyttri samskiptatækni að þeir sem að áður voru kannski taldir furðufuglar, eða sér á parti, og endilega ekki mikið mark á þeim takandi, þeir geta núna komið hvers konar vitleysu í umferð mjög auðveldlega.“

Forsætisráðherra sagði að þegar mikil tortryggni og efasemdir væru í gangi með allt að þá litu menn ekki síst til þeirra yfirlýsingaglöðu í umræðunni. Hann sagði það „galið ástand“ að fólk héldi því fram að hann væri galinn vegna þess að hann setti fram hluti sem einhverjir væru ósáttir við.

„Þetta er afleiðing af mikilli heift hjá þó afmörkuðum hópi. Maður má ekki gleyma því að þó að þessi hópur sé áberandi þá er hann ekki lýsandi fyrir samfélagið. [...] Þetta eru ekki lýsandi viðhorf fyrir Íslendinga. Þessi hópur hefur alltaf verið til en hann á bara svo greiða leið upp á yfirborðið núna og vekur meiri athygli heldur en þeir sem tjá sig af skynsemi og  yfirvegun.“

Sigmundur segist vera orðinn vanur umræðunni.

„Manni fannst þetta svolítið skrýtið fyrst, hvað menn gengu langt í því að reyna að vega að persónu manns. [...] Það er ótrúlegt hvað alls konar rugl og vitleysa á auðvelt með að komast í umferð núna.“

Hluta viðtalsins við Sigmund Davíð má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×