Innlent

Dæmd í þriggja mánaða fangelsi fyrir ítrekað búðarhnupl

Birgir Olgeirsson skrifar
Konan stal matvörum til að fjármagna neyslu sína.
Konan stal matvörum til að fjármagna neyslu sína. Vísir/Anton Brink
Kona á þrítugsaldri hefur verið dæmd til 15 mánaða fangelsisvistar, þar af eru 12 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir ítrekaðan þjófnað í verslunum á árinu 2014. Andvirði þýfisins nemur um hálfri milljón króna en dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Í flestum tilvikum stal konan matvöru í verslunum Bónuss, Krónunnar og Nóatúns en einnig stal hún snyrtivörum í Lyfju. Um er að ræða tólf brot en í einu tilviki stal hún matvöru í verslun Krónunnar að Fiskislóð að andvirði 66.381 króna. Þá er einnig talinn upp þjófnaður á matvöru að andvirði 59.121 króna í Krónunni í Jafnaseli og þjófnaður á matvöru í Krónunni, Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, að andvirði 68.852 króna. 

Hún játaði brot sín fyrir dómi og sagðist hafa verið í neyslu fíkniefna þegar brotin áttu sér stað en sé hætt og lagði fram nokkur vottorð því til sönnunar. Hún sagðist hafa framið brotin til að fjármagna neyslu sína en sjái mikið eftir því. Hún játaði brot sín bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi og sagði að ekki hafi hlotist tjón af þar sem kröfuhafar hafi endurheimt vörur sínar.

Konan á nokkurn sakarferil að baki frá árinu 2005 og á að baki nokkra dóma fyrir þjófnað, nú síðast 7. júlí árið 2014.

Konan skilaði inn vottorði frá Janusi endurhæfingu en fram kom í því vottorði að endurhæfing hjá þeim hafi í einhverjum tilfellum komið í stað afplánunar í samvinnu við Fangelsismálastofnun. Þótti því Héraðsdómi Reykjaness rétt að konan verði bundin sérstöku skilorði þannig að hún sæti sérstöku úrræði sem felst í umsjón hjá Janusi endurhæfingu með þátttöku hennar í atvinnuendurhæfingu og að hún neyti á þeim tíma hvorki áfengis né deyfilyfja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×