Innlent

„Við vorum heima þegar Boko Haram kom og réðst á okkur“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hátt í millljón barna hefur flúið átök í Nígeríu milli Boko Haram, stjórnarhersins og annarra vopnaðra hópa. Yfir þrjú hundruð skólar hafa verið eyðilagðir og kennarar og skólabörn eru skotmörk.

Ár er nú liðið síðan liðsmenn Boko Haram rændu rúmlega tvö hundruð stúlkum úr heimavistarskóla og voru mótmæli skipulögð víða í dag, meðal annars í Nígeríu, London og Washington. Stúlkurnar hafa ekki fundist en ættingjar þeirra halda í vonina.

Hvarf stúlknanna vakti mikla athygli en vandinn er mun stærri og í nýrri skýrslu UNICEF, Horfin barnæska, kemur fram að yfir átta hundruð þúsund börn hafi þurft að flýja heimili sín. Fjölmörgum hefur verið rænt og hafa börnin verið beitt miklu ofbeldi og jafnvel neydd til að taka þátt í vopnuðum átökum.

Hinn 15 ára gamli Peter er einn þeirra sem flýja þurftu heimili sín og rætt er við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

„Við vorum heima þegar Boko Haram kom og réðst á okkur,“ segir hann.

Peter varð viðskila við fjölskyldu sína, móður og fimm systkini, sem urðu eftir í Nígeríu. Hann hefur talað við þau í síma og vonast til að hitta þau aftur. „Þau eru ánægð með að ég sé í Dar es Salaam og að þeir (vígamennirnir) hafi ekki náð að drepa mig,“ segir Peter. „Ef guð lofar hitti ég þau aftur seinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×