Innlent

Óþolandi lýðræði í krafti meirihlutans

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í Reykjanesbæ.
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í Reykjanesbæ.
„Það er óþolandi lýðræði og ekki í anda nýrra sveitarstjórnarlaga að tilnefning áheyrnarfulltrúa sé háð túlkun pólitískra andstæðinga,“ segir Kristinn Þór Jakobsson, eini bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ, vegna umræðu um áheyrnarfulltrúa í ráðum og nefndum.

Líkt og fulltrúar minnihlutaframboða í Garðabæ gerðu eftir síðustu kosningar óskaði Kristinn eftir því að fá áheyrnarfulltrúa í ýmsum fagráðum Reykjanesbæjar en því var synjað. Hann segir ótækt að sveitarstjórnarlögin séu þannig að meirihlutinn í hverri sveitarstjórn geti ákveðið eftir sínum hentugleika hvort litlu framboðin fái áheyrnarfulltrúa eða ekki.

„Þannig að lýðræðið er háð túlkun meirihlutans. Það eru svona vinnubrögð sem koma í veg fyrir aukið lýðræði og gegnsæi og traust innan bæjarstjórnar.“

Að sögn Kristins missir hann af allri umræðu um flest mál því hún fari fram í fagráðunum áður en þau komi til bæjarstjórnar. „En ég kreisti það út að fá aðgang að öllum skjölum sem fylgja nefndarfundunum en þannig var það ekki áður.“

Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, sagði í samtali við fréttastofu í gær að launakostnaður og samskiptaörðugleikar við M-lista í Garðabæ væru ástæður þess að framboðið fengi ekki áheyrnarfulltrúa í nefndum bæjarins.

Þá bendir Gunnar á að engar fastmótaðar reglur séu um áheyrnarfulltrúa í lögum. „Í fyrsta lagi þá hefur lýðræðið talað og M-listinn hefur ekki fengið það kjörgengi að eiga fulltrúa í þessum nefndum. Í öðru lagi þá viljum við ekki blása út báknið. Síðan hefur þessi samstarfsvilji ekki verið til staðar við M-listann,“ segir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×