Innlent

Landssamband fiskeldisstöðva undrast áform um lögsókn

Svavar Hávarðsson skrifar
Samband veiðifélaga gagnrýnir harðlega eldi á norskum laxi við Ísland.
Samband veiðifélaga gagnrýnir harðlega eldi á norskum laxi við Ísland. vísir/sigurjón
Landssamband fiskeldisstöðva (Lf) lýsir furðu sinni yfir áformum Landssambands veiðifélaga (Lv) um málsókn á hendur Hraðfrystihúsinu Gunnvöru vegna áforma fyrirtækisins um 6.800 tonna sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi.

Höskuldur Steinarsson, formaður Lf, segir að fáar atvinnugreinar á Íslandi búi við jafn miklar takmarkanir og strangt regluverk og fiskeldi í sjókvíum. Frá árinu 2004 hafi verið óheimilt að ala laxfiska í sjókvíum í námunda við laxveiðiár á Íslandi og eldissvæðin því takmörkuð við Vestfirði, Austfirði, Eyjafjörð og Öxarfjörð.

„Hér er um að ræða mjög afgerandi ráðstöfun til varnar hugsanlegum óæskilegum áhrifum á villta laxastofna, komi til óhappa eða slysasleppinga við sjókvíaeldi. Þetta er regluverk sem eftir er tekið erlendis, enda til fyrirmyndar þegar kemur að sambúð fiskeldis og villtra stofna. Það liggur í hlutarins eðli að þetta stranga regluverk sem setur fiskeldismönnum mjög þröngar skorður hvað varðar eldissvæði, tekur fram fyrri takmörkunum og eftir þessu hafa eldisfyrirtækin því starfað, í sátt við hið opinbera og þau samfélög þar sem þau starfa,“ segir Höskuldur.

Formaður Lf bætir við að þar sem Ísafjarðardjúp falli innan þeirra svæða sem skilgreind eru sem eldissvæði, þá sé „erfitt að skilja á hverju hótanir um lögsókn byggja gagnvart fyrirtæki sem hyggst byggja upp þar atvinnustarfsemi á komandi árum“.

Lf vill benda á að laxeldisstarfsemi hafi átt stóran þátt í þeim viðsnúningi sem orðið hefur í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarin fimm ár. Skynsamleg uppbygging atvinnugreinarinnar í Ísafjarðardjúpi sé því fagnaðarefni fyrir það atvinnusvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×