Innlent

Verðlækkun skilar sér ekki til neytenda

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Innflutningur á svínakjöti hefur fimmfaldast frá árinu 2010. Verð á unnum svínavörum hefur hins vegar hækkað umfram neysluverðsvísitölu.
Innflutningur á svínakjöti hefur fimmfaldast frá árinu 2010. Verð á unnum svínavörum hefur hins vegar hækkað umfram neysluverðsvísitölu. fréttablaðið/gva
Framleiðendaverð til svínabænda hefur lækkað um 8,9 prósent á síðustu tveimur árum. Verð á unnu svínakjöti út úr búð hefur hins vegar hækkað um 8,5 prósent á sama tíma. Það er töluvert umfram neysluverðsvísitölu sem hefur hækkað um tæp fjögur prósent á tímabilinu.

„Þetta eru mjög sláandi tölur,“ segir Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands. „Verðið til bænda lækkar á milli átta og níu prósent en hækkar á sama tíma til neytenda.“

Virðisaukaskattur á matvörur hækkaði um síðustu áramót úr 7 prósentum í tólf. Verð á unnu, reyktu og söltuðu svínakjöti hélst nokkurn veginn í takti við vísitölu, en um áramótin hækkaði það töluvert umfram neysluverðsvísitölu.

Hörður segir athyglisvert að skoða þá þróun. Matarskattshækkunin skýri ekki þennan mun. Ljóst sé að verðlagning til neytenda fylgi ekki verði til bænda frá kjötvinnslu.

„Þá er spurningin sú hverjir bera sökina á þessari verðhækkun? Það er alveg klárlega ekki bóndinn, því verðið til hans hefur lækkað. Eftir að varan fer frá bóndanum fer hún til meðferðar hjá kjötvinnsluaðilanum og síðan versluninni. Og það er annar hvor þessara eða báðir sem verða til þess að verðið til neytenda hækkar eins og þessar tölur sýna.“

Innflutningur á svínakjöti hefur aukist umtalsvert síðustu ár, líkt og á öðru kjöti. Árið 2010 voru flutt inn 218 tonn af svínakjöti en í fyrra 983 tonn. Það er nærri því fimmföldun á innflutningi.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að svínabændur hyggist í dag gera athugasemd með formlegum hætti til ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, þar sem þeir telji hlutfall tollaverndar í svínakjöti hafa snarminnkað á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×