Innlent

Vélum fjölgaði um 12,5 prósent milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Lending við Leifsstöð. Fjöldi flugfélaga fer á ári hverju um íslenska flugstjórnarsvæðið.
Lending við Leifsstöð. Fjöldi flugfélaga fer á ári hverju um íslenska flugstjórnarsvæðið. Fréttablaðið/Anton
Flogin vegalengd í íslenska flugstjórnarsvæðinu á síðasta ári samsvarar 4.644 ferðum umhverfis jörðina, að því er fram kemur í nýjum tölum frá Isavia.

Þá fjölgaði vélum sem hér fóru um flugstjórnarsvæðið um 12,5 prósent milli ára, voru 130.856 í fyrra. Flognir kílómetrar voru 11,1 prósenti fleiri.

Fram kemur að á árinu 2014 hafi yfir 130 þúsund flugvélar flogið 186 milljónir kílómetra um íslenska flugstjórnarsvæðið. Farþegum í millilandaflugi fjölgaði um fimmtung (19,9 prósent) á meðan innanlandsfarþegum fækkaði um 2,8 prósent á sama tímabili.

„Farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli var alls 3.867.418 sem er 20,5 prósenta aukning frá fyrra ári. Umfang vöru- og póstflutninga minnkaði um 1,5 prósent innanlands en jókst um 1,3 prósent milli landa,“ segir í tilkynningu Isavia.

Mikill hluti flugumferðar er vegna ferða milli Evrópu og Norður-Ameríku, en um íslenska svæðið fer um fjórðungur þeirrar flugumferðar. „Algengasta leiðin innan flugstjórnarsvæðisins var sem fyrr frá London til Los Angeles en 2.181 ferðir voru farnar þá leið á árinu.“

Þau sjö flugfélög sem oftast flugu um íslenska svæðið eru Icelandair, United Airlines, Delta, British Airways, Lufthansa, Emirates og SAS, að því er fram kemur hjá Isavia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×