Innlent

Félag vélstjóra og málmtæknimanna í verkfall

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Guðmundur Ragnarsson
Guðmundur Ragnarsson
„Staðan er mjög alvarleg og VM getur ekki tekið þátt í að fara þá leið sem samið hefur verið um,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra- og málmtæknimanna, í ljósi þess að Samtök atvinnulífssins slitu kjaraviðræðum við félagið um helgina.

Niðurstöður viðræðna við Samtök atvinnulífsins voru lagðar fyrir samninganefnd Félags vélstjóra- og málmtæknimanna, sem hafnaði þeim hugmyndum að kjarasamningi. Sú niðurstaða var kynnt samninganefnd Samtaka atvinnulífsins sem í kjölfarið ákvað að slíta frekari viðræðum við félagið.

Guðmundur segir að verði ekki samið fyrir 10. júní, taki boðaðar verkfallsaðgerðir gildi, enda hafi mikill meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði verið fylgjandi slíkum aðgerðum til að knýja fram bætt kjör.

„Meðal þeirra sem færu í verkfall eru vélsmiðjurnar sem þjónusta stóriðjuna og útgerðina. Þá færi Marel og fleiri minni framleiðslufyrirtæki í málmiðnaðinum í verkfall. Einnig þeir sem þjónusta frystikerfi og kæla og frystihúsin,“ segir Guðmundur sem telur að verkfallið muni hafa mikil áhrif í samfélaginu. „Ef það bilar til dæmis eitthvað skip mun því ekki vera sinnt.“

Þá hefur boðuðum verkfallsaðgerðum iðnaðarmanna verið slegið á frest og hefur verið ákveðið að reyna semja fyrir 12. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samiðnar, Grafíu og Félags hársnyrtisveina. Samninganefndir þessara félaga og sambanda og Samtaka atvinnulífssins eru sammála um frestun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×