Innlent

Vinir á traktor þekkja leyndarmálið á bakvið góða vináttu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Vinirnir Karl og Grétar hafa farið hringveginn á tveimur vikum á sitt hvornum traktornum. Ferðinni lauk í dag á Olísstöðinni á Norðlingaholti þar sem þeim var fagnað. Ferðin var mikið ævintýri og á köflum þrekraun, það reyndi á úthaldið hjá þeim á leiðinni til Egilstaða og þeir urðu bæði kaldir og hraktir.

Þeir safna fyrir verkefni Barnaheilla gegn einelti í leikskólum og á ferð sinni hafa fjölmargir slegist í för með traktornum, sagt þeim sögur af einelti og þá hittu þeir einnig fyrir leikskólabörn víða um land og einlægni þeirra gladdi þá.

Þeir Karl og Grétar hafa verið vinir frá því þeir voru fimm ára gamlir, þeir voru saman í sveit á bænum Valdarási í Húnavatnssýslu og unnu þar sveitastörf. Vináttan er þeim mikils virði og þeir vita vel hvert leyndarmálið á bak við góða vináttu er; einlægni og hjálpfýsi.

Þeim finnst skipta máli að vinna gegn einelti barna og Grétar lenti sjálfur í einelti á barnsárum.

Söfnunin stendur yfir fram yfir helgi. Hægt er að styðja framtakið um 500 krónur með því að hringja eða senda sms-ið „gegneinelti" í símanúmerið 9041900




Fleiri fréttir

Sjá meira


×