Innlent

Sögðu pabba sinn hafa verið „brjálaðan og reiðan“ er hann braut vegginn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/getty
Hæstiréttur staðfesti í gær dóm héraðsdóms þar sem manni var gert skylt að sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði eftir að hafa veist að barnsmóður sinni að börnum þeirra sjáandi. Þá er honum vísað af heimili sínu í þrjá mánuði en maðurinn og konan slitu samvistum í lok síðasta árs og skiptu með sér forsjá barnanna.  

Samkvæmt framburði konunnar, sem reifaður er í dómi Hæstaréttar, var hún upp í rúmi á heimili sínu ásamt börnum, sem eru sex og þriggja ára gömul, er maðurinn barði fast á útihurðina. Vegna þessara aðfara hafi börnunum brugðið og öskrað og hágrátið. Hringdi konan þá til vinkonu sinnar og bað hana um að hringja á lögreglu, en eftir það opnaði hún útihurðina örlítið og tilkynnti manninum að hún myndi ræða við hann síðar þegar börnin væru ekki grátandi. 

Maðurinn á ekki að hafa sinnt þessum tilmælum heldur rykkt upp hurðinni og „grýtt“ konunni frá og á vegg, en í framhaldi af því gengið inn í íbúðina. Á meðan á þessu hafi staðið hafi börnin staðið hjá hágrátandi. Samkvæmt frásögn konunnar hafði maðurinn eftir að hann var kominn inn í íbúðina kýlt í vegg, en við það hefði keramiksdiskur fallið á gólfið og brotnað. Að þessu loknu rúllaði maðurinn sér sígarettu og þegar konan hafði ítrekað beðið hann um að fara út brást hann við með því að ýta henni frá.

Kannabislykt frá vitjum mannsins

Vegna þessa fór konan inn í herbergi til barnanna, en maðurinn fyldi henni þá eftir og „brjálaðist ennþá meira“ en rauk síðan út úr íbúðinni. Konan læsti útidyrahurðinni en maðurinn sparkaði og kýldi þá í hurðina þar til að konan opnaði á ný. Eftir það hrinti maðurinn henni frá sér, en leitaði eftir það í allri íbúðinni að kveikjara, en við þá iðju greip hann til konunnar að börnunum ásjáandi, en hvarf síðan skyndilega á braut.

Í skýrslu lögreglu segir að konan hafi greint frá því á vettvangi að hún fyndi til í baki vegna lýsts atgangs mannsins en ekki hlotið sýnilega áverka. Þar er einnig greint frá því að bersýnileg ummerki um átök hafi verið á vettvangi, þar á meðal sprunga á vegg og glerbrot á gólfi. Skráð er í lögregluskýrslu að þegar lögreglumenn voru á vettvangi hefðu börnin haft á orði að pabbi þeirra, hefði verið „brjálaður og reiður“ og að hann hefði brotið vegginn.  

Samkvæmt gögnum var maðurinn handtekinn af lögreglu þar sem hann var á reiðhjóli skammt frá heimili konunnar. Greint er frá því að hann hafi verið með sýnilega bólgu á hægri hendi og greinilega undir áhrifum lyfja eða örvandi efna, en að auki hafi verið kannabislykt frá vitum hans. Við skýrslutökur kannaðist maðurinn ekki við að hafa veitt konunni áverka en gekkst við því að hafa á einum tímapunkti eða öðrum ýtt henni.

Ítrekuð afskipti af heimilshaldinu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögreglan hefur haft afskipti af manninum en í dómnum er vísað til sjö skipta á síðastliðnum tveimur árum þar sem lögreglan hefur talið nauðsynlegt að grípa inn í heimilshaldið. Í dagbókarfærslu lögreglu frá 16. mars síðastliðnum er greint frá aðkomu lögreglu á heimili mannsins þar sem hann lá meðvitundarlaus á gólfi íbúðar sinnar, en börnin voru þá í umsjá hans. Greint er frá því að þegar maðurinn hafi komið til sjálfs síns hafi hann verið mjög lyfjaður. Vegna þess atviks hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart – ekki í fyrsta skipti. 

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×