Innlent

Vilja banna notkun fjarstýrðra flygilda á veiðisvæðum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Drónar verða sífellt vinsælli hér á landi.
Drónar verða sífellt vinsælli hér á landi. vísir/getty
Veiðimenn finna í auknum mæli fyrir truflunum af völdum dróna á veiðisvæðum. Landssamband veiðifélaga hvetur veiðifélög því til þess að setja reglur um notkun þessara flygilda á veiðitíma.

Tillaga um bann við notkun dróna á veiðisvæðum var samþykkt á aðalfundi Landssambands veiðifélaga, sem haldinn var á Breiðdalsvík í júní. Engar reglur eru til um notkun fjarstýrðra flygilda á veiðisvæðum en kvartanir vegna þeirra verða sífellt algengari, að sögn Jóns Helga Björnssonar, formanns félagsins. Því var talin þörf á að taka umræðuna.

„Það hafa borist kvartanir þegar menn hafa verið að nota svona tæki við árnar og það er nú þannig að þegar menn eru í veiði þá eru þeir að leita eftir ákveðinni náttúruupplifun, kyrrð og ró. Það fer kannski ekki alveg saman við það að það sé fljúgandi dróni yfir mönnum til að taka myndir,“ segir Jón Helgi í samtali við Vísi.

Hann segir veiðifélögin flest hafa tekið vel í tillöguna og íhugi nú hvernig eigi að útfæra reglur sem þessar. Jón Helgi telur líklegt að reglunum verði framfylgt. „Venjan er sú að ef það eru reglur við ár þá eru þær haldnar, þannig að ég hef ekki trú á öðru en að fólk virði það. Svo er annað mál að menn geta líka haft einhverjar undantekningar, ef einhver vill taka myndir, og það er samkomulag um það hjá öllum sem eru að veiða. Þannig að á fundinum voru menn svona almennt á því að það væri full ástæða til að hafa um þetta reglur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×