Enski boltinn

Yaya Toure fannst gagnrýnin ósanngjörn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaya Toure.
Yaya Toure. Vísir/EPA
Yaya Toure skoraði tvö mörk fyrir Manchester City þegar liðið vann 3-0 útisigur á West Bromwich Albion í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Yaya Toure var gangrýndur fyrir frammistöðu sína á síðasta tímabili þegar Manchester City missti enska titilinn til Chelsea.

„Ég er svolítið hissa á umfjölluninni. Síðasta tímabil var kannski ekki það besta hjá okkur en við urðum samt í öðru sæti. Það finnst mér ekki vera lélegur árangur," sagði Yaya Toure við Sky Sports.

Yaya Toure er ekki sáttur við þau skrif knattspyrnublaðamanna að hann sé kominn aftur í sitt góða gamla form.

Knattspyrnustjóri hans Manuel Pellegrini talaði þó um það eftir sigurinn á WBA að hann vonaðist að sjá Yaya Toure frá því fyrir tveimur árum og sleppa við að fá þann Yaya Toure sem spilaði fyrir hann á síðustu leiktíð.

„Ég er ekki að koma til baka. Ég hefur alltaf verið hérna. Ég fékk mikla gagnrýni en ég átti ekki slæmt tímabil. Ég skoraði tólf mörk og vann Afríkubikarinn," sagði Toure.

Tímabilið á undan skoraði Yaya Toure 20 mörk og gaf 9 stoðsendingar í 35 leikjum og Manchester City vann enska titilinn. Á síðasta tímabili var hann með 10 mörk og 1 stoðsendingu í 29 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en það samt annað besta tímabil hans í ensku úrvalsdeildinni hvað varðar markaskorun.

„Ég veit hvað ég vil og ég veit hvað ég þarf að gera. Ég á ekki að velta mér upp úr því sem aðrir segja um mig. Fólk verður samt að átta sig á því að fótboltalið snúast ekki um einn leikmann heldur allt liðið. Ég vona að þetta verði gott tímabil fyrir okkur," sagði Yaya Toure.

Seinna mark Yaya Toure á móti West Bromwich Albion var hans fimmtugasta í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði samtals 18 mörk á fyrstu þremur tímabilum sínum með Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×