Innlent

Útilokar ekki breytingar á skiptingu ráðuneyta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi í morgun.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi í morgun. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, útilokar ekki að ráðuneytum verði skipt upp á milli stjórnarflokka. Þetta kom fram í þættinum á Sprengisandi í morgun en þar spurði Sigurjón M. Egilsson hann út í þessi mál.

Tveir nýir ráðherrar tóku nýlega sæti í ríkisstjórn; Ólöf Nordal fer nú með innanríkismálin fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Sigrún Magnúsdóttir með umhverfis-og auðlindamál fyrir hönd Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð segir engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi breytingar á skiptingu á ráðneyta. Hann segir slíkar breytingar bæði hafa kosti og galla.

„Kosturinn við óbreytt fyrirkomulag er að það tekur hvern ráðherra alltaf ákveðinn tíma að komast inn í sinn málaflokk og vera með hann á hreinu þannig að hlutirnir gangi smurt fyrir sig. Svo er hitt að oft er ágætt að fá inn nýtt sjónarhorn og hrista aðeins upp í hlutunum. Þetta togast á og ég skal ekki segja hver niðurstaðan verður úr því en það er alveg möguleiki á einhverjum tilfærslum en það hafa engin sérstök drög verið lögð að því.“

Eru ekki einhver ráðuneyti sem að Sjálfstæðismenn eru með sem þú vildir hafa í þínum flokki?

„Jú, jú. Ég vildi helst hafa þau öll en það er víst ekki hægt að fara fram á það. Þeir eru með ýmis stór og mikilvæg ráðuneyti sem vissulega væri eftirsóknarvert að hafa og við gerum ráð fyrir að þeim þyki það sama um þau ráðuneyti sem við erum með.“

Værir þú til dæmis til í að skipta við Bjarna?

„Nei, það hefur nú aldrei komið til tals. Þvert á móti var gengið frá því í upphafi samstarfsins að við myndum halda okkur í þeim ráðuneytum sem við erum í en hinn möguleikinn var skilinn eftir opinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×