Innlent

Aðalleiðir lokast á Norður-og Austurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skafrenningur og stórhríð er víða á Norðurlandi.
Skafrenningur og stórhríð er víða á Norðurlandi. vísir/vilhelm
Þar sem þjónustu Vegagerðarinnar er lokið í dag má búast við að ófært verði fljótlega á flestum aðalleiðum á Norður-og Austurlandi, ef það er ekki orðið ófært nú þegar. Þjónusta verður aftur hjá Vegagerðinni milli klukkan 10 og 14 á morgun, jóladag.

Færð og aðstæður:

Hálka er á Reykjanesbraut.

Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Suðurlandi en þæfingsfærð á Suðurstrandarvegi og á mörgum útvegum.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Á Bröttubrekku er snjóþekja og stórhríð. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Snjóþekja, hálka og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Innstrandarvegi. Ófært er á Þröskuldum og einnig á Klettsháls og þar er óveður. Þæfingur er á Kleifaheiði.

Á Norðurlandi er hálka, skafrenningur og stórhríð á flestum leiðum. Lokað er um Víkurskarð. Hálka og stórhríð er í kringum Blönduós. Ófært er á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi. Þungfært og stórhríð er á Tjörnesi. Frá Mývatni og yfir fjöllin til Egilsstaða er þæfingsfærð, skafrenningur og stórhríð. Ófært er meira og minna frá Kópaskeri í Vopnafjörð.

Á Austurlandi er hálka eða þæfingur. Fagridalur er lokaður sem og Fjarðarheiði. Ófært á Vatnskarði eystra.

Með suðausturströndinni er víða orðið greiðfært en eitthvað er um hálku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×