Innlent

Þrjú þúsund í átakinu Menntun núna

ingibjörg bára stefánsdóttir skrifar
Nemendur útskrifaðir úr námskeiðum styrktum af vekefninu Menntun núna.
Nemendur útskrifaðir úr námskeiðum styrktum af vekefninu Menntun núna. mynd/menntun núna
Um þrjú þúsund einstaklingar hafa á einn eða annan hátt notið góðs af tilraunaverkefninu Menntun núna í Breiðholti sem hófst fyrir tæpum tveimur árum en er nú lokið. Árangurinn þykir svo góður að halda á verkefninu áfram þótt það verði minna í sniðum. „Við í Breiðholti ætlum að halda áfram að hittast og vinna saman. Það fækkar í framkvæmdateymi verkefnisins en við ætlum að þróa áfram tækifæri til menntunar,“ segir Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri í Breiðholti.

Menntun núna var tilraunaverkefni menntamálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, aðila vinnumarkaðarins og fræðslustofnana. Í verkefninu var lögð áhersla á fræðslu í nærsamfélaginu, að efla innflytjendur, sem eru fjölmennir í Breiðholti, með íslenskunámi og samfélagsfræðslu. Svokallaðir brúarsmiðir fengu þjálfun í að aðstoða samlanda sína við að nýta tækifæri sín í nýju landi. „Meðal námskeiðanna var leiðtoganámskeið fyrir konur sem var mjög vel sótt og árangursríkt. Með því var verið að virkja konur sem leiðtoga í sínu nærsamfélagi,“ greinir Ólafur frá.

Jafnframt var lögð áhersla á að ná til brotthvarfsnema á svæðinu. „Haft var samband við um 600 manns sem horfið höfðu frá námi og þeim veitt viðtöl við ráðgjafa eða boðin önnur úrræði. Við teljum að 100 manns hafi beinlínis hafið aftur nám eftir íhlutun. Við erum búin að sá fræjum. Fólk fær hvatningu og ráðgjöf. Það veit oft ekki hvaða tækifæri bjóðast til að fara aftur í nám,“ tekur Óskar fram.

Auk Breiðholts hefur verkefnið Menntun núna verið í gangi í Norðvesturkjördæmi. Markmiðið þar var að efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á vinnustað í kjördæminu, auka samstarf atvinnulífs og fræðsluaðila þar um starfstengt nám, fjölga einstaklingum sem ljúka iðnnámi og efla íslenskukunnáttu innflytjenda í kjördæminu.  Verkefnið var liður í átaki til þess að hækka menntunarstig í íslensku atvinnulífi. Sömu aðilar og komu að verkefninu í Breiðholti komu að því í Norðvesturkjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×