Innlent

Bið eftir augnaðgerð er allt upp í þrjú ár

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Biðlistar hafa lengst síðan í október í aðgerðir til þess að fjarlægja ský af augasteini. Þessar aðgerðir geta bætt lífsgæði fólks mikið og biðin getur reynst erfið.
Biðlistar hafa lengst síðan í október í aðgerðir til þess að fjarlægja ský af augasteini. Þessar aðgerðir geta bætt lífsgæði fólks mikið og biðin getur reynst erfið. NORDICPHOTOS/GETTY
Allt upp í þriggja ára bið er eftir aðgerðum til þess að fjarlægja ský á augasteini. Biðlistarnir hafa lengst hratt en í október sagði Fréttablaðið frá því að biðlistar eftir slíkum aðgerðum, sem borgaðar eru af Sjúkratryggingum Íslands, væru eitt og hálft ár.

Hins vegar er hægt að komast í aðgerð mjög fljótlega kjósi sjúklingurinn sjálfur að borga fyrir aðgerðina en hún kostar um 200 þúsund fyrir hvort auga og misjafnt er hvort sjúklingar þurfa aðgerð á öðru auga eða báðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis frá því í lok febrúar þá er um 2.861 aðgerð á biðlista en hver aðgerð á við eitt auga, sumir þurfa aðgerð á báðum augum en einungis er gerð aðgerð á einu auga í einu.

Aðgerðirnar eru gerðar á augndeild Landspítalans, Sjúkrahúsinu á Akureyri og á tveimur einkastofum, Sjónlagi og Lasersjón. Hjá Sjónlagi er biðin lengst, hátt upp í þrjú ár, hjá Lasersjón er það yfir tvö ár, um eitt og hálft ár á Landspítalanum en hjá augnlæknum sem eru með aðstöðu á Sjúkrahúsinu á Akureyri er biðin styst, eða um 35 vikur.

Einkastofurnar tvær hafa hvor um sig kvóta upp á 400 aðgerðir á ári frá Sjúkratryggingum en geta þó sinnt mun fleiri aðgerðum.

Einar Stefánsson
„Það lengist og lengist hjá okkur biðlistinn sem skýrist af því að ríkið setur ekki meiri pening í þennan málaflokk. Það er komið upp í þrjú ár sem fólk þarf að bíða eftir að komast í augasteinsaðgerð. Þetta skerðir gríðarlega lífsgæði fólks,“ segir Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Sjónlags. Yfirleitt eru það eldri borgarar sem fara í þessar aðgerðir og geta þær skipt sköpum fyrir lífsgæði fólks. Nefnir Kristinn sem dæmi að sumir missi bílpróf vegna þess að sjónin sé ekki nógu góð. 

Eiríkur Stefánsson, yfirlæknir á augndeild Landspítalans, segir að þar séu gerðar eins margar aðgerðir og þeir ráði við. 

Hins vegar hafi fækkað þeim aðgerðum sem gerðar eru á ári þar sem þessar aðgerðir víki fyrir öðrum bráðari aðgerðum, meðal annars aðgerðum sem snúa að hrörnun í augnbotnum.

Fjármagn til deildarinnar hafi minnkað eftir hrun og það bitni meðal annars á því að biðlistar í þessar tilteknu aðgerðir lengist. 

„Þær víkja vegna þess að fólk með ský á augasteinum getur beðið, það verður ekki fyrir bráðum skaða. En það getur orðið bráður skaði hjá þeim sem eru með hrörnun í augnbotnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×