Innlent

Telja sig vera að ná tökum á ástandinu í Leifsstöð

Birgir Olgeirsson skrifar
Tafir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa reynt á þolinmæði margra farþega.
Tafir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa reynt á þolinmæði margra farþega. Vísir/Vilhelm
Fjöldi farþega sem fer um Flugstöð Leifs Eiríkssonar stefnir í 4,8 milljónir í ár ef fram fer sem horfir. Það er aukning um 900 þúsund farþega frá því í fyrra þegar 3,9 milljónir fóru um flugstöðina. Þetta segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, við fyrirspurn Vísis en heildaraukning frá janúar til júní er 24,9 prósent eða rúmir 400 þúsund farþegar.

Spáð var 12 prósenta aukningu í júlí en hún reyndist 20 prósent fyrstu daga þess mánaðar. Miklar tafir hafa verið við innritun og vopnaleit í flugstöðinni undanfarnar vikur og hafa farþegar verið beðnir um að mæta tímanlega fyrir brottför til að dreifa álaginu. Heildarfjöldi farþega um flugstöðina síðustu tvo sunnudaga var um 22 þúsund hvorn dag.

Hafa tafirnar við innritunina verið skrifaðar á mikinn fjölda ferðamanna sem fer um flugstöðina á sama tíma, tafir við uppsetningu á nýjum öryggisleitarlínum og innleiðingu á breyttu verklagi sem Isavia segir ekki hafa verið hægt að fresta.

Minni tafir

Guðni segir að unnið hafi verið í því að bæta aðstöðuna þannig að tafirnar verði minni.

„Aðgerðirnar hafa skilað miklum árangri. Í gær gekk þetta betur í gegn og það var minni bið hjá farþegum í öryggisleitinni. Við erum búin að fá í gagnið fleiri af þessum nýju vopnarleitarvélum. Farþegar hafa líka mætt fyrr. Það hefur náðst að dreifa álaginu mun betur. Þetta horfir allt til betri vegar. Við erum enn að þjálfa fólk með nýju öryggisleitarvélarnar. Þetta mun hægt og rólega verða betra hjá okkur,“ segir Guðni.

Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að sjá þessa aukningu fyrir miðað við spár frá því í vetur svarar hann því til að búist var við 12–15 prósenta aukningu sem reyndist síðan vera 20 prósenta aukning.

„Prósentur af þessum stærstu mánuðum eru dálítið háar tölur. Við reynum að miða mannaflaspána við að ráða við það stærsta. Þetta eru stærstu punktarnir. Maður reynir að halda sig akkúrat við það. Þegar aukningin er mikið meiri en maður gerir ráð fyrir þá getur maður lent í þessu. Við höfum brugðist hratt við þessu og það hefur skilað árangri.“

Klukkutíma bið

„Sunnudagurinn fyrir viku síðan var erfiðastur. Á sunnudag fyrir viku fór biðin í klukkutíma. Núna var biðin aldrei lengri en hálftími. Og oft í kringum tuttugu mínútur. Strax á þessari einu viku höfum við náð miklum árangri. Við vonumst eftir því sem við náum fleiri línum í gang. Við erum að færa til starfsfólk innan flugverndarinnar hjá okkur til að þétta betur á þessum álagstíma það hefur skilað árangri líka. Farþegar hafa mætt fyrr. Þá dreifist álagið á lengra tímabil. “

Farþegar hafa verið hvattir til að mæta tímanlega fyrri flug, allt að tveimur og hálfum til þremur tímum fyrir flug, en helstu álagstímar eru á morgnana, síðdegis og um miðnætti en stærstu dagar vikunnar eru fimmtudagar, föstudagar og sunnudagar.



Flugtími

Mesta álag í öryggisleit

Snemma morguns

6:00-7:30

Morgunn

9:00-11:00

Síðdegisflug

15:00-16:30

Miðnæturflug

22:30-24:00




Fleiri fréttir

Sjá meira


×