Innlent

"Skýrt í mínum huga að við erum að gera hlutina með réttum hætti"

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra hélt ræðu á hátíðardagskrá sjómannadagsráðs í dag. Talaði hann um lánsemi Íslendinga varðandi sjávarútveg sem greiði háar upphæðir til ríkisins en sé ekki á framfæri hins opinbera líkt og víða annars staðar.

„Því er freistandi að spyrja hvort ekkert hafi verið gert hér rétt og verið sé að gera hér sömu mistökin aftur og aftur. Í ljósi stöðu sjávarútvegarins er skýrt í mínum huga að við erum að gera hlutina með réttum hætti. Sem tryggir sjálfbærni og arðsemi. Fiskurinn er veiddur, verkaður og seldur af fólki sem kann til verka. Og það er ekki þannuig að hver sem er geti farið á sjó og tryggt sömu verðmæti fyrir land og þjóð.“

Sigurður sagði að þó ýmislegt annað hefði rekið á borð Íslendinga sem stuðla ætti að hagsæld hér á landi þá væri sjávarútvegurinn undirstaða hagsældarinnar. Ekki voru allir sammála og var mótmælt þegar hann vísaði til núverandi kvótakerfis.

„Þjóð hefur treyst á þolgæði sjómanna og allra sem næst þeim standa. Og mun gera það áfram. Ég tel að það verði best gert með því að byggja á því fyrirkomulagi sem við höfum haft við veiðar og vinnslu. Það fyrirkomulag tryggir arðsemi veiða og vinnslu til hagsbóta fyrir alla sem hér á landi búa. Að sjálfsögðu er kerfið ekki hafið yfir gagnrýni og sjálfsagt að sníða af vankanta en kollsteypur munu niður á sameiginlegum hagsmunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×