Innlent

Taka lán upp á hálfan milljarð til að kaupa leikskóla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Leikskólinn Grænuvellir er á Húsavík.
Leikskólinn Grænuvellir er á Húsavík. Vísir/GVA
Sveitarfélagið Norðurþing hyggst taka 445 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaganna til að festa kaup á húsnæði leikskólans Grænuvellir á Húsavík. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í seinustu viku en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Óli Halldórsson, formaður bæjarráðs Norðurþings, segir að lántakan hafi verið skárri kosturinn af tveimur. Hinn kosturinn hafi verið að festa sveitarfélagið í óhagstæðum leigusamningi við fasteignafélagið Fasteign.

„Við mátum stöðuna þannig með tilliti til greiðslubyrði, ábyrgðar á fasteigninni, viðhalds og annars að þetta væri okkur hagstæðari kostur þó að hann væri vissulega afarkostur,“ segir Óli.

Hann segir að lánið, sem er til 20 ára, hafi sáralítil áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, nema þá vonandi til batnaðar.

„Þetta hefur til að mynda ekki áhrif á skuldastöðu sveitarfélagsins því leigusamningurinn er bókfærður sem skuld inn í ársreikning. Við skiptum honum því í rauninni bara út fyrir lánið sem er upp á nánast sömu upphæð.“

Greiðslubyrðin verður því svipuð, og ef til vill eitthvað lægri að sögn Óla, en á móti kemur að sveitarfélagið eignast húsið. Það var byggt árið 1978 en var tekið í gegn af fasteignafélaginu Fasteign fyrir 10 árum. Brunamótamat þess samkvæmt fasteignaskrá er rúmar 300 milljónir króna.

Óli segir að kaupverðið sé vissulega hátt en það sé lítið hægt að tengja verðið við markaðsvirði hússins.

„Það er í raun verið að taka yfir leigusamning sem er óuppsegjanlegur og ekki hægt að komast út úr. Hann er því framreiknaður og keyptur upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×