Innlent

Veist að samkynhneigðu pari sem leiddist eftir Lækjargötu

Birgir Olgeirsson skrifar
Jóhann Örn lýsir aðkasti sem hann og kærasti hans urðu fyrir í Lækjargötu í nótt.
Jóhann Örn lýsir aðkasti sem hann og kærasti hans urðu fyrir í Lækjargötu í nótt. Vísir/Aðsend/GVA
„Mér finnst mjög leiðinlegt að við getum ekki haldið í höndina á hvor öðrum eins og Jón og Gunna,“ segir Jóhann Örn Bergmann Benediktsson en veist var að honum og kærasta hans í Lækjargötu í nótt. 

Jóhann lýsti atburðarásinni fyrir vinum sínum á Facebook í nótt þar sem hann sagðist fara sorgmæddur að sofa vitandi að hann búi í samfélagi þar sem hann er gagnrýndur fyrir að vera eins og hann er og elska þann sem hann elskar. 

Jóhann Örn lýsir atvikum þannig fyrir Vísi að hann og kærasti hans hefðu verið á gangi með fram Lækjargötunni í nótt, til móts við leigubílaröðina, þegar ókvæðisorðum var hrópað að þeim. Barst fúkyrðaflaumurinn frá leigubílaröðinni.

„Við erum að ganga með fram götunni og þá heyri ég kallað að okkur: „Við vorum á undan þér í leigubílaröðinni.“ Þeir notuðu orð á borð við faggaógeð og hommaviðbjóður,“ segir Jóhann.

Jóhann, sem er 23 ára, segir að um fjóra menn á hans aldri hafi verið að ræða. „Þetta endaði með því að ég labbaði upp að þeim og spurði hvað þeim gekk til. Þá fóru þeir að kalla mig öllum illum nöfnum og sögðu „drullaðu þér í burtu hommaógeð“. Ég svaraði á móti að þeim hlyti að líða svakalega illa. Þá ýtti einn þeirra við mér þannig að ég rann til í hálkunni og datt í götuna,“ segir Jóhann Örn.

Hann segir þá sem þekkja sig besta vita að hann er seinn til vandræða en á þessum tímapunkti hafi honum verið algjörlega misboðið. Þegar hann hafði staðið upp aftur þurfti kærastinn hans að stöðva hann frá því lenda í slagsmálum við þessa menn. 

Jóhann segir nokkra vegfarendur hafa orðið vitni að þessu, sumir hafi gengið fram hjá en einn af leigubílstjórunum hefði hrópað á drengina og sagt þeim að láta af þessari hegðun.

Hann segir sig og kærasta sinn hafa sloppið án teljandi meiðsla en stoltið sé sært. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×