Innlent

Bjarni Benediktsson segir að endurskoða þurfi verklag við fjárlagagerðina

Birgir Olgeirsson skrifar
Tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á fjárlögum komu of seint inn í þingið og gögn voru of seint lögð fram. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, en hann er á þeirri skoðun að endurskoða þurfi verklag við fjárlagagerðina í þinginu. Ekki sé eðlilegt að umræðan um fjárlagafrumvarpið hafi tekið jafn langan tíma og raun ber vitni.

Fjárlagafrumvarpið var afgreitt að lokinni þriðju umræðu á sjöunda tímanum í gærkvöldi og þingstörfum lauk svo á áttunda tímanum og eru þingmenn farnir í jólafrí. Bjarni sagði undir þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið að ákveðin mistök hefðu verið gerð sem varð til þess að fjárlagavinnan dróst jafn mikið á langinn og raun ber vitni.

„Tillögur ríkisstjórnarinnar komu of seint inn í þingið en það breytir því svo sem ekki að það hefði ekki þurft að hafa þau áhrif að umræðan yrði hundrað klukkustunda löng. Það er meira spurningum um samkomulag. Og það er með svo margt hérna í þinginu að við getum skrifað okkur frá hlutum endalaust og sett reglur, skrifað inn í þingsköpin hvernig hlutirnir eiga að ganga fram en þegar allt kemur til alls þá er það viljinn til þess að halda utan um ákveðna hluti, eins og þessa sem ræður úrslitum.“

Bjarni sagðist ekki neita því að gögn hefðu komið of seint fram en breyta þyrfti verklagi í þinginu.

„Ég nefni hér sem dæmi atkvæðaskýringar við aðra umræðu. Ég held að þingflokkarnir ættu að tala sig betur saman um það fyrir atkvæðagreiðsluna þannig að hún taki ekki átta klukkutíma eða sex, sjö klukkustundir eins og hún gerði að þessu sinni. Það er algjörlega óeðlilegt og það er óþarfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×