Innlent

Fjárskortur stendur frumkvæði umboðsmanns fyrir þrifum

Snærós Sindradóttir skrifar
Tryggvi Gunnarsson hefur verið umboðsmaður Alþingis frá árinu 1998. Hann tók upp forathuganir til að bregðast við fjárskortinum.
Tryggvi Gunnarsson hefur verið umboðsmaður Alþingis frá árinu 1998. Hann tók upp forathuganir til að bregðast við fjárskortinum. vísir/gva
Engin frumkvæðis­athugun hefur farið fram hjá Umboðsmanni Alþingis á árinu því álag og fjárveitingar gera embættinu ekki kleift að sinna þeim. Þetta kemur fram í nýjustu ársskýrslu embættisins.

„Ég tel þessa stöðu ekki ásættanlega miðað við núgildandi lög sem og þær ábendingar sem ég fæ og þær upplýsingar sem koma fram við athuganir á kvörtunum. Þá hefur heldur ekki gefist tækifæri til að ljúka sem skyldi eldri frumkvæðismálum og kvörtunum sem áformað hefur verið að ljúka í tengslum við þau,“ segir í skýrslunni.

Frumkvæðisathuganir eru verkfæri umboðsmanns til að hafa eftirlit með stjórnvöldum án þess að kvörtun berist embættinu fyrst. Oftar en ekki er vísað til fjölmiðlaumfjöllunar þegar frumkvæðisathugun hefst.

Umboðsmaður Alþingis hefur brugðist við vandanum með svokölluðum forathugunarmálum. Þá er óskað eftir upplýsingum frá stjórnvöldum og lagt mat á hvort tilefni sé til að taka tiltekið málefni til athugunar. Þetta hefur sautján sinnum verið gert á þessu ári, nú síðast þegar óskað var eftir upplýsingum um málsmeðferð og rannsókn Útlendingastofnunar á umsóknum um mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum.

Björg Thorarensen lagaprófessor
Forathugunin á útlendingamálum hófst vegna brottflutnings tveggja albanskra fjölskyldna en tveir langveikir drengir, þriggja ára og átta mánaða, höfðu notið heilbrigðisþjónustu hér á landi. Sem dæmi um aðra forathugun sem hefur átt sér stað á árinu er beiðni um upplýsingar um möguleika aðstandenda til að leggja fram kvörtun hjá landlækni yfir mistökum eða vanrækslu sem þeir telja hafa leitt til andláts sjúklings.

„Í stað þess að ákveðin atriði detti niður þá er frekar vakin athygli stjórnvalda á þeim og þau leggja þá mat á hvort þau taki sjálf boltann eða hvort umboðsmaður þarf að fara í málið,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

„Þetta er mikilvægasta stofnunin sem hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu og stjórnsýslu á vegum stjórnvalda,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hún játar því að að vissu leyti sé óheppilegt að stjórnvöld sjái um fjárveitingu til embættisins en segir að einhver þurfi að gera það. Fjárveitingarvaldið verði ekki tekið af Alþingi. 

Athyglisverðar frumkvæðisathuganirUmboðsmaður Alþingis hóf rannsókn á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, þáverandi lögreglustjóra, vegna lekamálsins svokallaða. Forathugun hófst í kjölfar fréttaflutnings DV af því að ráðherra hefði átt í samskiptum við lögreglustjórann um meðferð trúnaðarupplýsinga úr ráðuneytinu á sama tíma og lögreglurannsókn var í gangi.

Fjölmiðlar greindu frá því að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði hafið fíkniefnaleit í Tækniskólanum í Reykjavík árið 2010. Umboðsmaður leitaði svara við því af hvaða tilefni leitin var gerð og á hvaða lagagrundvelli. Niðurstaða umboðsmanns var að leit lögreglunnar hefði ekki stuðst við lagaheimild og beindi þeim tilmælum til lögreglustjórans að þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu yrði höfð í huga í framtíðarstörfum lögreglunnar.

Árið 2010 komst umboðsmaður að því að oft væri misbrestur á því að rökstuddir úrskurðir mannanafnanefndar væru birtir opinberlega. Bætt var úr birtingunni snarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×