Innlent

Nýttu heimildina til að opna vopnakassa lögreglubíla í Reykjavík í fyrsta sinn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Allar verklagsreglur í kringum breytingar á vopnamálum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru frágengnar í síðustu viku.
Allar verklagsreglur í kringum breytingar á vopnamálum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru frágengnar í síðustu viku. Vísir
„Þessi heimild var veitt á laugardag,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um það að almennir lögregluþjónar hafi verið vopnum búnir á vettvangi á Kjalarnesi á laugardag.

Tilkynning barst lögreglu um mann á sjötugsaldri sem væri með skotvopn og sýndi af sér ógnandi framkomu á heimili sínu. Fréttablaðið greindi frá því í lok síðasta mánaðar að um miðjan desem­ber yrði stefnt að því að skammbyssum yrði komið fyrir í sérstökum vopnakassa í lögreglubílum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn.

Að sögn Ásgeirs Þórs voru allar verklagsreglur í kringum breytingarnar tilbúnar í síðustu viku og þriggja ára verkefni lokið. Vopnakössum hefur verið komið fyrir í nokkrum lögreglubílum á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregluþjónar munu ekki koma til með að hafa aðgang að skammbyssunum nema þar til bær yfirmaður láti þeim í té aðgangskóða að vopnakassanum eftir að hann hefur verið upplýstur um málavexti. ­Yfirmaður mun þá meta nauðsyn þess í hverju tilviki fyrir sig.

„Í þessu tilviki var það aðstoðaryfirlögregluþjónn sem var bær yfirmaður til að veita hana. Ef verkefnið þolir ekki bið þá getur hann sjálfur tekið ákvörðun, annars þarf hann að bera ákvörðun undir yfirmann sinn,“ segir Ásgeir.

Kristján Ólafur Guðnason að­stoðar­yfirlögregluþjónn, sem veitti umrædda heimild, segir að á laugardag hafi komið upp aðstæður þar sem verklagið hafi átt við og að eftir því hafi verið farið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×