Erlent

„Nýtt tímabil er hafið í spænskum stjórnmálum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, fagnar úrslitum kosninganna með stuðningsmönnum sínum.
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, fagnar úrslitum kosninganna með stuðningsmönnum sínum. vísir/epa
Þjóðarflokkurinn, hægriflokkur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, tapaði 63 þingsætum í þingkosningum sem fram fóru í landinu í dag; fékk 123 þingmenn kjörna en var með 186 þingmenn á seinasta kjörtímabili.

Sósíalistaflokkurinn hlaut 90 sæti en vinstriflokkurinn Podemos vann mikinn sigur og fékk 42 sæti í sínum fyrstu þingkosningum. Þá fékk hægriflokkurinn Ciudadanos 40 þingsæti.

Þjóðarflokkurinn hefur tapað 3,8 milljónum atkvæða og meira en 60 þingsætum á fjórum árum.

Úrslitin þýða að enginn flokkur er með hreinan meirihluta á spænska þinginu en til þess þarf 176 sæti. 

Allt frá því að einræðisherrann Francisco Franco lést árið 1975 og lýðræði var komið á á Spáni hafa Þjóðarflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn ráðið lögum og lofum í spænskum stjórnmálum. Aðrir flokkar hafa varla komist á blað í kosningum fyrr en nú.

„Nú er sá tími liðinn að tveir flokkar skiptist á að fara með völdin. Nýtt tímabil er hafið í spænskum stjórnmálum,“ sagði Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í kvöld.

Stjórnmálaskýrendur telja að það geti orðið afar erfitt fyrir Rajoy forsætisráðherra að mynda ríkisstjórn á ný þar sem Þjóðarflokkurinn nær ekki meirihluta með Ciudadanos, sem þeir eiga hvað mesta samleið með.

Sósíalistaflokkurinn gæti hins vegar myndað meirihluta með því að vinna bæði með Podemos og Ciudadanos. 

Hér að neðan má sjá líklegar samsteypustjórnir og hvaða meirihluta þær myndu hafa. 


Tengdar fréttir

Uppstokkun á Spáni

Gömlu stjórnmálaflokkunum á Spáni er spáð miklu tapi í þingkosningunum á morgun. Umbyltingarhreyfingin Podemos virðist þó ekki ætla að ná því gífurlega fylgi sem lengi vel stefndi í. Langvarandi efnahagskreppa breytir myndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×