Innlent

Fjölmennt lið lögreglu kallað til vegna upplausnarástands í hegningahúsinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Fangar hótuðu að kveikja í klefum hver hjá öðrum í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Fangar hótuðu að kveikja í klefum hver hjá öðrum í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Vísir/E.Ó.
Alvarlegt ástand skapaðist í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg laugardaginn 12. desember. Kalla þurfti til lögreglu og auka mannskap vegna ósættis á milli þriggja fanga í hegningarhúsinu. Höfðu þeir meðal annars uppi hótanir um að kveikja í klefum hver hjá öðrum. Tólf lögreglumenn og sex fangaverði þurfti til að koma böndum á fangana.

„Það komust fíkniefni inn í fangelsið, eins og gerist stundum, og þá getur ástandið orðið svona,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. Hann segir þetta atvik ekki geta talist óeðlilegt miðað við hvað starfsmenn fangelsismálastofnunar hafa fengist áður við.

Höfðu fangarnir meðal annars uppi hótanir um að kveikja í klefum hver hjá öðrum í hegningarhúsinu. Vísir/GVA
Hann segir umfang aðgerðarinnar ekki hafa verið mikið heldur hafi verið um að ræða mjög ákveðið og skýrt verklag sem fer í gang innan fangelsisins þegar svona atvik koma upp.

„Það er ýmist kallaður út mannskapur eða hringt á lögreglu. Svo eru málin afgreidd,“ segir Páll og ítrekar að á engum tímapunkti hafi skapast hættuástand í fangelsinu og höfðu fangaverðir og lögreglumenn fulla stjórn á aðstæðum.

„Það kom ekki til átaka. Þetta voru bara ungir menn að æsa sig, þegar þeir safnast nokkrir saman getur það orðið snúið. “

Skilja þurfti fangana að og segir Páll það hafa verið afar mikilvæga aðgerð. „Hluti þeirra var færður á Litla-Hraun og svo var bara skipt niður á fangelsi. Það þurfti að aðskilja þessa fanga. Menn fúnkera misvel saman í hópi. Stundum eru menn úr sömu málum saman í fangelsi og var þessi aðskilnaður mjög mikilvægur.“

Hann segir þá sem starfa við fangelsismál á Íslandi telja niður þar til nýja fangelsið verður opnað á Hólmsheiði á vormánuðum.

„Þar verður hægt að skilja svona hópa að með einföldum hætti. Það eru stærri tímamót og jákvæðari tímamót en hafa átt sér stað í fangelsismálum í marga áratugi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×