Innlent

Stefnt á stofnun einkarekins grunnskóla í Hafnarfirði næsta haust

Ingvar Haraldsson skrifar
Kristján Ómar Björnsson, eigandi Framsýnar, vonast til að skólinn taki til starfa næsta haust.
Kristján Ómar Björnsson, eigandi Framsýnar, vonast til að skólinn taki til starfa næsta haust. fréttablaðið/valli
Stefnt er að því að opna nýjan einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði næsta haust.

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti umsókn Framsýnar skólafélags ehf. um stofnun skólans fyrir sitt leyti á fundi sínum á föstudaginn. Kristján Ómar Björnsson, eigandi Framsýnar, segir að nú taki við viðræður við menntamálaráðuneytið um öll tilskilin leyfi. Gangi það eftir þarf félagið að gera þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ.

Stefnt er að því að 120 nemendur verði í skólanum innan þriggja ára. Fyrsta skólaárið verði allt að 45 nemendur í 9. bekk. Á öðru skólaárinu bætist við 10. bekkur og 8. bekkur á því þriðja.

Skólinn mun byggja á vendikennslu, þar sem nemendur tileinka sér námsefnið á eigin spýtur en nýta tímann með kennara til að leysa vanda sem kemur upp í náminu. Kristján segir að áhersla verði lögð á að nýta sér kosti upplýsingatækn­innar sem og íþróttaiðkun nemenda. „Við ætlum að nýta tæknina til fulls til þess að einstaklingsmiða nám meira en hefur verið gert hingað til.“

Í bókun frá meirihluta fræðslunefndar er áætlað að aukinn kostnaður fyrir Hafnarfjarðarbæ muni í mesta lagi nema 25 til 33 milljónum króna á næsta ári komi nemendurnir allir úr almennum grunnskólum í Hafnarfirði.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í fræðsluráði greiddu atkvæði gegn tillögunni. Þeir töldu ekki forsvaranlegt að leggja í aukin útgjöld til einkarekins skóla á meðan skorið væri niður í almennum grunnskólum Hafnarfjarðar. Ljóst væri að kostnaðurinn myndi aukast á næstu árum gengju áform um fjölgun nemenda eftir.

Ekki liggur fyrir í hvaða húsnæði skólinn verður en Kristján segir að það verði tekið til skoðunar nú í kjölfar jákvæðra viðbragða fræðsluráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×