Innlent

Rauði krossinn heldur hjálparstarfi áfram um jólin

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliðar pökkuðu inn jólagjöfum, sem útigangsfólk og aðrir skjólstæðingar heilbrigðisverkefnisins Frú Ragnheiðar fá frá Rauða krossinum um jólin.
Sjálfboðaliðar pökkuðu inn jólagjöfum, sem útigangsfólk og aðrir skjólstæðingar heilbrigðisverkefnisins Frú Ragnheiðar fá frá Rauða krossinum um jólin. Mynd/Rauði krossinn
Rauði krossinn heldur áfram að sinna margvíslegu hjálparstarfi um jólin. Meðal annars verður Konukot, athvarf samtakanna fyrir heimilislausar konur, opið allan sólarhringinn frá Þorláksmessu, í dag, fram á annan í jólum. Hefðbundinn opnunartími er frá 17 og fram til 10 daginn eftir.

Athvarf Rauða Krossins fyrir fólk með geðraskanir, Vin, verður með skötuveislu í dag en þar verður lokað á aðfanga- og jóladag en annan í jólum verður boðið upp á samveru með sjálfboðaliðum á milli 14 og 17.

Samtökin hafa þá einnig úthlutað fé úr Áfallasjóði sínum í fyrsta sinn í aðdraganda jóla. Nokkrir einstaklingar sem hafa orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna sjúkdóma og slysa fengu stuðning úr sjóðnum. Til viðbótar hafa um fimm hundruð fengið fatakort til að nota í verslunum Rauða krossins.

Frú Ragnheiður verður svo á ferðinni um jólin, að aðfangadegi undanskildum. „Margir skjólstæðingar verkefnisins eru heimilislausir og þeir fá jólapakka, sem starfsmenn og sjálfboðaliðar útbjuggu í aðdraganda jóla,“ segir í tilkynningu Rauða Krossins.

Í dag verða svo sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík á fjórum stöðum í miðbænum og bjóð aupp á rjúkandi kakó. „Velunnurum félagsins er boðið að styrkja starf félagsins, hvort sem er með peningum eða kortum,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×