Innlent

Orkuveitan borgar 1,7 milljóna króna ferðakostnað fyrir hóp sem fór ekkert

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tveggja daga ferð fimmtán manna hóps til Danmekur kostaði tæplega 1,9 milljón króna. Að auki greiðist 1,7 milljón fyrir 15 sem fóru ekki með.
Tveggja daga ferð fimmtán manna hóps til Danmekur kostaði tæplega 1,9 milljón króna. Að auki greiðist 1,7 milljón fyrir 15 sem fóru ekki með. Fréttablaðið/Vilhelm
Orkuveita Reykjavíkur þarf að greiða tæplega 1,7 milljónir króna fyrir 15 manna hóp sem fór ekki í áætlaða vinnuferð til Kaupmannahafnar í lok september.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks spurðust fyrir um Kaupamannahafnarferðina í stjórn Orkuveitunnar í nóvember.

„Upphaflega var áætlað að stjórnir OR og dótturfélaga færu í ferðina ásamt helstu stjórnendum þessara félaga í því skyni að eiga nauðsynlegan stefnumótunarfund. Þremur dögum fyrir brottför var hins vegar ákveðið að gera þær breytingar á fyrirkomulagi ferðarinnar að í hana færu einungis stjórnarmenn móðurfélags ásamt helstu stjórnendum þess og ráðgjöfum,“ er rakið í fyrirspurn Áslaugar Friðriksdóttur og Kjartans Magnússonar.

Úr varð að aðeins tíu af upphaflegum 25 manna hópi fóru til Kaupmannahafnar dagana 27.-29. september. Meðal annars var um að ræða heimsókn í flutninga- og orkufyrirtækið Maersk.

Óskuðu Áslaug og Kjartan eftir að öll gögn sem lögð voru fram í ferðinni eða urðu til vegna hennar yrðu lögð fram í stjórn Orkuveitunnar. Einnig báðu þau um upplýsingar um kostnað við ferðina og hvort útgjöld yrðu vegna þeirra sem á endanum fóru ekki utan.

Áslaug Friðriksdóttir.
„Þá er óskað eftir rökstuðningi fyrir því af hverju nauðsynlegt þótti að halda umræddan fund erlendis,“ segir í fyrirspurn fulltrúanna tveggja sem svarað var skriflega á stjórnarfundi OR 14. desember.

„Upphaflega var gert ráð fyrir því að 25 starfsmenn, stjórnarmenn og ráðgjafar færu í ferð stjórnar Orkuveitunnar og dótturfélaga til Kaupmannahafnar. Þær fyrirætlanir breyttust og voru 10 einstaklingar sem fóru,“ segir í svarinu.

Þegar farið er yfir ferðakostnaðinn kemur í ljós að Orkuveitan greiðir 1.877 þúsund fyrir tíu manna hópinn sem fór og 1.690 þúsund vegna hópsins sem varð eftir.

„Búið var að panta flug fyrir alla auk þess sem gisting og fundakostnaður hafði verið greiddur. Hluti fargjalda fékkst endurgreiddur,“ segir í svarinu þar sem fram kemur að ekki sé „búið að fullreyna möguleika á endurgreiðslu“ vegna gistingar og fargjalda.

Í svarinu kemur hvorki fram hvers vegna umræddur fundur var haldinn erlendis né hvers vegna hópurinn var minnkaður svo mikið.

„Ekki gafst ráðrúm til að ræða þetta mál á síðasta fundi og minnisblaðið bara lagt fram en við teljum að það megi skýra þetta betur,“ segir Áslaug Friðriksdóttir.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, kveðst ekki geta svarað spurningum Fréttablaðsins um ferðina fyrr en eftir hátíðarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×