Innlent

Styrkja fólk sem hefur orðið fyrir áföllum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fjórir fengu nú í aðdraganda jóla úthlutað úr áfallasjóði Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Markmið sjóðsins er að styrkja þá sem hafa orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna sjúkdóma og slysa.

Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en framvegis stendur til að gera það einu sinni í mánuði.

„Við erum bara að byrja á þessu og úthlutuðum núna í desember til fólks sem hefur orðið fyrir áföllum en getur náð sér aftur á strik. Við eru að hjálpa fólki til þess að það missi ekki fótana. Þetta er sérstaklega nístandi um jólin þegar reikningarnir koma,“ segir Þórir Guðmundsson hjá Rauða krossinum.

Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að greiddir eru reikningar einstaklinga upp að tiltekinni upphæð til dæmis húsaleiga eða kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu.

„Það er oft þannig að þegar menn lenda í áföllum þá byrja þeir á að ganga á eigur sínar, byrja að hranna upp skuldum og við reynum að létta á með aðstoð,“ segir Þórir.

Hann segir að þörfin sé mikil.

„Það eru mjög margir í þessari stöðu og það kom í ljós þegar við opnuðum fyrir umsóknir að það eru margir sem lenda í aðstæðum sem þeir ráða illa við en hafa allt til þess að geta sé sjálfum sér farboða en þurfa bara tímabundna aðstoð,“ segir Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×