Innlent

Franskur blaðamaður gerður brottrækur frá Kína

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ursula Gauthier.
Ursula Gauthier.
Stjórnvöld í Peking í Kína ætla að vísa frönskum blaðamanni úr landi vegna greinar sem hún skrifaði í tímaritið L‘Obs, þar sem hún gagnrýndi stefnu stjórnvalda gagnvart Úígúrum, minnihlutahópi í héraðinu Xinjiang, sem flestir eru múslimar.

Blaðakonunni, Ursulu Gauthier, verður gert að yfirgefa landið fyrir árslok. Stjórnvöld hafa staðfest þetta við þarlenda miðla og segjast ekki ætla að endurnýja fréttamannaleyfi hennar, en þar með fellur úr gildi dvalarleyfið.

Umrædda grein skrifaði hún skömmu eftir árásirnar í París, en í henni sakar hún stjórnvöld um að hafa nýtt sér árásirnar til að réttlæta aðgerðir þeirra gegn Úrígúrum. Ríkismiðlar gagnrýndu hana harðlega og kröfðust afsökunarbeiðni. Gauthier neitar þó að biðjast afsökunar og segir ásakanirnar fjarstæðar.

Síðast var blaðamaður gerður brottrækur frá Kína árið 2012, en það var Melissa Chan, fréttamaður Al Jazeera.

Úígúra ættflokkurinn telur um níu milljónir, og mælir hann á tyrkneska tungu. Þeir eru flestir múslimar, en á meðal þeirra eru herskáir aðskilnaðarsinnar sem áratugum saman hafa barist gegn yfirráðum Han-Kínverja í Xinjiang-héraðinu. Þeir saka Kínastjórn um að ræna þá ættjörðinni með því að flytja þangað Han-Kínverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×