Innlent

Nokkuð um pústra í miðbænum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Margir voru samankomnir í nótt til að skemmta sér.
Margir voru samankomnir í nótt til að skemmta sér. vísir/tumi
Lögreglumenn á vakt í nótt fengu þó nokkrar tilkynningar um slagsmál og líkamsárásir í miðbæ borgarinnar. Í það minnsta ein kona var flutt á slysadeild eftir árás. Margir voru samankomnir á skemmtistöðum bæjarins til að skemmta sér fram undir morgun en ekki kom öllum vel saman. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Auk stimpinganna bárust ítrekaðar tilkynningar af fólki sem hafði hrasað og dottið í hálku og hlotið af því áverka. Einnig kemur fram að skömmu eftir fjögur hafi þurft að flytja konu á slysadeilt með sjúkrabíl eftir að hún datt á borð á skemmtistað í Kópavogi.

Skömmu fyrir klukkan tíu í gærkvöldi var lögreglan kölluð til vegna líkamsárásar í íbúð við Hverfisgötu. Þar hafði maður verið sleginn í andlit með barefli og hlaut af því áverka. Árásarþoli ætlaði að koma sér sjálfur á slysadeild en gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að.

Þá var tilkynnt um innbrot á heimili í Hafnarfirði. Þjófarnir höfðu spennt upp glugga og rótað í íbúðinni. Ekki er vitað hvað var haft á brott úr íbúðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×