Innlent

Formaðurinn segir lykilatriði að Samfylkingin hugsi stórt

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Samfylkingarinnar miklar þjóðfélagsbreytingar hér á landi sem og annars staðar hafa áhrif á fylgi stjórnmálaflokka. Auðvitað hafi minnkandi fylgi áhrif á Samfylkinguna en stærsta hættan sem stjórnmálaflokkar standi frammi fyrir sé að hætta að hugsa stórt.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Sigurjón spurði hann út í þverrandi fylgi flokksins í könnunum, stöðu hans sem formanns og gagnrýni sem heyra mætti á formanninn innan úr Samfylkingunni sjálfri.

„Auðvitað hefur þessi staða áhrif en það þýðir ekkert að velta sér allt of mikið upp úr henni. Fólk bara tekur afstöðu og það sem er að gerast um allan heim eru gríðarlegar breytingar í stjórnmálunum,“ sagði Árni Páll.

Ísland hafi lenti í kreppunni fyrr en aðrar þjóðir, komist upp úr henni fyrr en aðrar þjóðir og kannski brotið af sér gömlu stjórnmálin fyrr en aðrar þjóðir.

„Það blasir auðvitað við að fólk er að hrinsta af sér gamla strúktúra og gömul formog vill kannski taka afstöðu með öðrum hætti en áður. Stjórnmálin verða að laga sig að því. Flokkar verða að laga sig að því,“ sagði Árni Páll.

Burt séð frá persónulegri stöðu hans eða Samfylkingarinnar á þessum tímapunkti sýni reynslan að fylgi flokka geti breyst hratt. Hitt sé ljóst að áfram verði þörf fyrir jafnaðarmannaflokk á Íslandi sem þurfi að vera með svör við vaxandi misskiptingu og þeim væntingum sem fólk hafi til stjórnmálanna.

Efast þú þá aldrei um að þú sért rétti maðurinn til að leiða flokkinn, spurði Sigurjón.

„Ég velti því oft fyrir mér hvort ég hafi svör við þessum stóru spurningum. Mér þætti satt að segja gaman að hitta einhvern stjórnmálamann í dag sem telur sig hafa svör við þessum stóru spurningum. Mér þætti gaman að sjá forystumann í einhverjum flokki sem halda að hann skilji til fulls þá strauma sem við erum að ganga í gegnum,“ sagði Árni Páll.

Auðvitað velti hann fyrir sér hvort hann sé rétti maðurinn til forystu en til þess að svara því hafi Samfylkingin lýðræðislegar aðferðir.

„Samfylkingin þarf að opna sig. Hún þarf að vera fjölbreytilegur flokkur. Hún þarf að vera tilbúin að vera alvöru jafnaðarmannaflokkur. Það er ekki forsjárhyggjuflokkur. Það er ekki er ekki forskriftaflokkur. Stóra hættan er bara ein og hún er sú sem ég varaði við í ræðu á kosninganótt: Flokkar verða ekki litlir við að missa fylgi heldur við að hætta að hugsa stórt og lykilatriði fyrir Samfylkinguna núna er að hugsa stórt,“ sagði Árni Páll Árnason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×