Innlent

Linda Pé flytur inn einn þekktasta vísindamann heims

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jane Goodall er talinn einn helsti sérfræðingur heimsins um simpansa.
Jane Goodall er talinn einn helsti sérfræðingur heimsins um simpansa.
Breski dýra-, fremdardýra- og mannfræðingurinn Jane Goodall er væntanleg til Íslands í júní á næsta ári.

Sigurður Baldvin Sigurðarson, einn þeirra sem hefur veg og vanda af komu hennar til landsins, segir að óvarlegt væri af honum að gefa upp nákvæma fyrirætlan hennar hér á landi að svo stöddu. Hann gat þó staðfest í samtali við Vísi að Goodall hyggðist halda hér erindi um hugðarefni sín og vinna náið með sérfræðingum á vegum Háskóla Íslands þá daga sem hún verður hér á landi – 12. til 16. júní 2016.

„Jane ferðast 320 daga ársins til allra landa og boðar sinn boðskap sem er í þágu dýraverndar, velferðar dýra og meðhöndlun þeirra,“ segir Sigurður.

„Jafnframt er hún frægur umhverfissinni og mun leggja ríka áherslu á þessa skoðun sína í heimsókn sinni hér. Hún er þeirrar skoðunar að til að betrumbæta framtíðina þurfi að miðla til yngri kynslóða þessum boðskap sínum og standa vörð um verðmæti hvers lands fyrir sig,“ bætir hann við en Jane Goodall hefur aldrei áður komið til Íslands.

Dýralögfræðingur og fegurðardrottning lokka hana til landsins

Goodall er sérstakur sendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir friði og er talinn einn helsti sérfræðingur heimsins um simpansa. Hún er hvað þekktust fyrir 45 ára langan rannsóknarferil sinn á félagslegri hegðun og fjölskylduböndum viltra simpansa í Gombe Stream National Park í Tansaníu. Hún stofnaði Jane Goodall-stofnunina og hefur unnið mikið að verndun og velferð villtra dýra.

Meðal þeirra sem standa að komu Goodall til landsins eru fyrrnefndur Sigurður, fegurðardrottningin Linda Pétursdóttir og dýralögfræðingurinn Árni Stefán Árnason.

Sem fyrr segir mun heimsókn Jane Goodall standa yfir frá 12. til 16. júní 2016. Hér að neðan má sjá hana spjalla við þáttastjórnandann John Oliver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×