Innlent

Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins telur að leikskólakennarar ættu að hafa sömu laun og háskólakennarar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, er einn af þeim fjölmörgu sem rætt var við í sérstökum þætti sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi um ævi og störf rithöfundarins og kennarans Jennu Jensdóttur.

Jenna og Styrmir kynntust vel því Jenna starfaði sem bókmenntagagnrýnandi á Morgunblaðinu í 30 ár. Þau náðu vel saman og urðu miklir vinir.

„Ég hef nú svona velt því fyrir mér af hverju við náðum svona vel saman. Hún var óskaplega góð við mig og það var svolítið óvenjulegt á þeim tíma að það væru einhverjir góðir við ritstjóra Morgunblaðsins,“ segir Styrmir. Að hans mati voru Jenna og maður hennar, Hreiðar Stefánsson, sem einnig var kennari og rithöfundur, fólk sem var á undan sinni samtíð í umfjöllun um börn.

„Ég man mjög vel eftir því þegar ég var strákur að það þótti nú ekkert voðalega merkilegt að vera barnakennari en eftir því sem árin hafa liðið þá hefur mér orðið ljóst smátt og smátt að þetta starf sem fólk vinnur í tengslum við börn í æsku þeirra er það sem öllu máli skiptir í lífinu.“

Þá segir Styrmir að mörg þeirra vandamála sem samfélagið glímir við í dag megi rekja til þess sem gerist fyrir börn í æsku.

„Þess vegna er ég kominn á þá skoðun að það eigi að umbylta velferðarkerfi á þann veg að það eigi að leggja alla áherslu á sálgæslu barna og unglinga. Mér finnst sjálfum í dag að leikskólakennarar séu mikilvægustu kennararnir í kennarastéttinni og jafnvel mikilvægari en háskólakennarar. Þar af leiðandi eigi í raun og veru að greiða leikskólakennurum að minnsta kosti jafnhá laun og háskólakennarar fá, ef ekki ekki hærri laun,“ segir Styrmir.

Innslag úr þættinum um Jennu þar sem rætt er við Styrmi má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Skrifar enn á hverjum degi 97 ára

„Jenna er framúrskarandi einstaklingur, afskaplega greind og hlý manneskja. Ein þeirra sem hefur mannbætandi áhrif á aðra,” segir sjónvarpskonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sem gerði þátt um rithöfundinn Jennu Jensdóttur sem heitir einfaldlega Jenna og verður sýndur á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×