Innlent

Sex mánaða nálgunarbann fyrir hótanir gegn öðrum manni: „Ég skal fokking slatra þer“

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn sem fékk á sig nálgunarbann er meðal annars ákærður fyrir hótanir í garð mannsins sem hafði farið fram á nálgunarbannið.
Maðurinn sem fékk á sig nálgunarbann er meðal annars ákærður fyrir hótanir í garð mannsins sem hafði farið fram á nálgunarbannið. vísir/gva
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem karlmanni var gert skylt að sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga um nálgunarbann og brottvísun á heimili.

Lögreglustjórinn ákvað á Þorláksmessu að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili annars manns í Reykjavík á svæði sem afmarkast umhverfis húsið. Jafnframt var lagt bann við því að maðurinn sem hafði í hótunum myndi veita manninum sem hann hótaði eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Maðurinn sem varð fyrir hótunum hafði óskað eftir nálgunarbanni vegna áreitis og ónæðis á undanförnum vikum. Hafi maðurinn sem fór fram á nálgunarbannið lýst því að hann hafi orðið fyrir miklu ónæði og hótunum en nýlega hefði verið þingfest mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem sá sem hlaut nálgunarbannið sé ákærður fyrir hótanir gagnvart manninum sem fór fram á nálgunarbannið.

Þá hafi lögreglan ítrekað haft afskipti af málum sem tengist manninum sem fékk á sig nálgunarbann og manninum sem óskaði eftir nálgunarbanninu. Sá hafði einnig kært manninn sem fékk á sig nálgunarbann og fleiri menn fyrir líkamsárás gegn sér í september síðastliðnum.

Þau mál sem liggja til grundvallar ákvörðunar lögreglustjóra ná aftur til ársins 2014 en það nýlegasta er frá 20. desember síðastliðnum. Barst lögreglu þá tilkynning um hótanir frá manninum sem fékk á sig nálgunarbann gegn manninum sem fór fram á bannið. Lögreglan hitti þann sem sagðist hafa orðið fyrir hótunum og dóttur hans. Hafi maðurinn skýrt lögreglu frá því að maðurinn sem hótaði sér væri ítrekað búinn að hringja í sig og senda sér skilaboð, meðal annars með hótunum um að mæta fyrir utan heimili hans og taka í hann. Varð dóttir þess manns sem varð fyrir hótununum vör við þær og orðið mjög hrædd.

17. nóvember síðastliðinn tilkynnti maðurinn sem fór fram á nálgunarbannið að skotið hefði verið á heimili hans. Þegar lögreglan kom á vettvang mátti sjá fjögurra sentímetra skemmd á ytra byrði glers á glugga á íbúð mannsins. Hafi maðurinn talið umrætt atvik hafa gerst nóttina áður meðan hann svaf og hafi hann talið að atvikið tengdist þeim deilum sem hefðu verið á milli hans og mannsins sem fékk á sig nálgunarbannið.

10. september er manninum sem fékk á sig nálgunarbann gefið að sök að hafa í félagi við þrjá aðra menn gengið í skrokk á manninum sem fór fram á nálgunarbannið við Smáralind í Kópavogi. Var þeim gefið að sök að hafa beitt hættulegum bareflum, þar á meðal járnröri, hafnaboltakylfu og kúbeini með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut brot á vinstri þvertindum og þriðja og fjórða lendarhryggjarlið, afrifu á fyrsta ristarbeini á hægri fæti, afrifur frá nærkjúka vinstri stóru táar, sár á vinstra eyra, sár á hægri vísifingri, mar á baki og báðum þjóðhnöppum, skrámu á hægri framhandlegg, blæðingu undir nögl á hægri þumalfingri, eymsli í fjærkjúku, sár og eymsli yfir nærlið hægri vísifingurs, eymsli um handarbakið, marbletti á vinstri fótlegg og vinstra læri, eymsli á hægra hné og hnéskel og eymsli á hægri og vinstri rist.

Þá er sá sem fékk á sig nálgunarbannið ákærður fyrir hótanir með því að hafa í tvígang á árinu 2014 hótað manninum sem óskaði eftir nálgunarbanninu í einkaskilaboðum á Facebook.



Umrædd skilaboð voru eftirfarandi:

1. Laugardaginn [...]. mars 2014, kl. [...]:

„þú ert nu meiri fokkking

ræfillinn sökkerpunsar 60

kall og hleypur í burtueins og fokkking hræ í

öðrum skónum þetttaa er

fokkking pabbi ég skal

fokking slatra þer fríkið

þótt ég þurfi að eyða

restinni af æviinni herna

innni ég fokkking slatra

þér fokkkking

kryppplinguirnn þiinnn

það er fokkking loforð “.

2. Fimmtudaginn [...]. apríl 2014,  kl. [...]:

„ [...] þú reðst a pabba

minn af engri helvitis

astæðu ef þið eruð að

plana eh gegn pabba

minum drep eg ykkur alla

og þig first ekki vera

svona heimskur af engri

astæðu nóg að okkur lenti

saman en þetta er komið

gott hvað a pabbi minn

sem er 60 að nenna

þurfa standa í svona

kjaftæði hann er með

fjölskyldu en eg lofa þer

því [...] g ersvo miklli

pabba strakur að eg

hugsa mig ekki tvisar um

16 ara dom fyrir hann svo

þú vitir það bara láttu

þetta kjurt ligggja “.

Þótti þessi upptalning nægja Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti Íslands um að maðurinn skuli sæta nálgunarbanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×