Innlent

Þarf að afplána eftirstöðvar refsingar eftir skilorðsrof

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Litla-Hraun verður að teljast líklegur áfangastaður mannsins.
Litla-Hraun verður að teljast líklegur áfangastaður mannsins. vísir/e.ól.
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að manni skuli gert að afplána eftirstöðvar tveggja fangelsisrefsinga sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur árin 2012 og 2015. Manninum var veitt reynslulausn í ágúst á þessu ári en hefur síðan þá ítrekað komist í kast við lögin.

Maðurinn var handtekinn 22. desember síðastliðinn þar sem hann hafði stolið útivistarfatnaði fyrir rúmar 340.000 krónur og reynt að komast undan á hlaupum. Við skýrslutöku hjá lögreglunni sagði hann að í upphafi mánaðarins hefði hann verið rændur aleigunni og hann hafi þurft að verða sér úti um jólagjafir fyrir börnin sín með einhverjum hætti. Hann hafi ekki farið inn í búðina með það markmið að stela en áður en hann vissi af var hann kominn með einhvern fatnað sem hann ákvað að taka með sér.

Auk þessa atviks eru sex önnur mál skráð hjá lögreglunni þar sem maðurinn kemur við sögu. Þremur dögum áður hafði hann tekið bifreið ófrjálsri hendi og ekið henni á brott og um miðjan desember stöðvaði lögregla hann þar sem hann ók bifreið undir áhrifum vímuefna. Bifreiðin reyndist stolin en að auki var maðurinn án próflaus. Þá hafði maðurinn verið yfirheyrður vegna húsbrots, líkamsárásar og tveggja fíkniefnabrota.

Hæstiréttur taldi að fram væri kominn sterkur grunur um að maðurinn hefði, eftir að honum var veitt reynslulausn, gerst sekur um háttsemi sem geti varðað allt að sex ára fangelsi. Hann hafi því rofið skilyrði reynslausnarinnar. Hann þarf því að afplána 150 daga eftirstöðvar áðurgreindra fangelsisrefsinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×